Ungum manni, sem grunaður var um ölvun við akstur, tókst í fyrrinótt að stinga lögregluna á Hvolsvelli af á traktor, synda svo yfir Ytri-Rangá og fela sig fyrir leitarmönnum.
Fram kemur á fréttavefnum Suðurlandi.is, að maðurinn hafði upphaflega farið á veitingastað á Hellu á dráttarvél. Eftir að hafa setið þar að sumbli ætlaði hann að aka sömuleiðis heim til sín á sveitabæ skammt frá Hellu. Á Oddavegi mætti hann lögreglu sem vildi ná af honum tali. Maðurinn tók á rás undan lögreglu yfir mýrar og móa. Þegar hann kom að Ytri-Rangá, til móts við bæinn Bjólu, óð hann út í og synti niður eftir ánni. Lögreglumennirnir óðu á eftir en án árangurs og misstu þeir sjónar af manninum eftir að hann var kominn upp úr.
Því næst var björgunarsveit kölluð út til að leita að manninum. Þrátt fyrir langa leit bar hún engan árangur. Maðurinn virðist hafa falið sig rækilega meðan svæðið var fínkembt en síðar um nóttina gaf sig fram á sveitabæ um einn kílómetra frá ánni.