Sumarliði Guðbjörnsson, deildarstjóri ökutækjatjónadeildar Sjóvár-Almennra, segir ökumenn sem valda tjóni skaðabótaskylda, þó svo þeir hafi ekki náð nógu háum aldri til ökuréttinda. „Menn geta orðið skaðabótaskyldir vegna misgjörða þó þeir séu ekki orðnir lögráða. Við vitum dæmi þess að endurkröfunefnd hafi samþykkt endurkröfu á fimmtán eða sextán ára unglinga vegna tjóns sem þeir hafa valdið öðrum,“ segir Sumarliði.
Sumarliði segir það mun alvarlegra og viðkvæmara mál hver bótaréttur farþega sé, sérstaklega með tilliti til slyssins í gær, þar sem ung stúlka slasaðist alvarlega þegar 16 ára ökumaður ók á ljósastaur. „Sá sem ekur ökutæki án þess að hafa til þess réttindi eða sýnir á annan hátt af sér stórkostlegt gáleysi, getur átt von á því að fá á sig endurkröfu vegna þess tjóns sem hann veldur,“ segir Sumarliði. Viti farþegar af því að ökumaður er réttindalaus eða undir áhrifum áfengis sýni þeir stórkostlegt gáleysi og taki mikla áhættu. Það geti jafnvel skert þeirra bótarétt, eins og fordæmi séu fyrir. Sumarliði segist þó ekki þekkja nógu vel málið sem um ræðir, þ.e. bílslysið í Ártúnsbrekku, til þess að fullyrða neitt um það sem slíkt.
„Við getum tekið dæmi af ljósastaurnum í þessu tilfelli. Tryggingafélag viðkomandi ökutækis bætir ljósastaurinn, síðan er það mál gert upp og lagt fyrir endurkröfunefnd samkvæmt fyrirmælum umferðarlaga. Endurkröfunefndin tekur afstöðu til þess hvort atvikið flokkist undir stórkostlegt gáleysi og þá hvernig eigi að meðhöndla það. Hvort eigi að endurkrefja og að hversu stórum hluta,“ segir Sumarliði.
Ef ökumaðurinn hefði keyrt á annan bíl og valdið fólki í honum líkamstjóni hefði tryggingafélagið gert upp tjónið fyrir hans hönd en málið færi síðan til nefndarinnar. „Félögunum er uppálagt að leggja svona mál, þar sem ásetningur og stórkostlegt gáleysi kemur upp, fyrir endurkröfunefnd sem skipuð er af dómsmálaráðherra. Hún ákvarðar hvort atvikið falli undir stórkostlegt gáleysi og hvort og að hversu miklu leyti eigi að endurkrefja viðkomandi tjónvald,“ segir Sumarliði.
Þjófnaður er bótaskylt tjón. Sumarliði segir erfitt að svara spurningunni hvort það sé þjófnaður þegar unglingar taka bíl foreldra sinna í leyfisleysi. Það sé lögreglumál en ekki tryggingamál.