Um þrjátíu manns voru fluttir á sjúkrahús í gær eftir eiturefnaslys á Eskifirði þar sem klórgas lagði yfir sundlaugina í bænum. Slysið má rekja til þess að edikssýru var fyrir mistök hellt í klórtank laugarinnar. Á þriðja tug manna, aðallega börn og unglingar, var í lauginni þegar eitrunarinnar varð vart með þeim hætti að fólk fór að hósta og kúgast, megn fýla fannst af gasinu og fólk hné niður og kastaði upp.
Börn munu hafa verið í meirihluta þeirra sem veiktust og fleiri konur en karlar. Fyrst voru allir fluttir á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað en þaðan voru fjórir, þar af þrjár ungar stúlkur, fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík og tveir til Akureyrar. Tólf manns voru á sjúkrahúsinu í Neskaupstað í nótt og var líðan þeirra stöðug í gærkvöldi, að sögn vakthafandi læknis. Aðallega var um að ræða einkenni frá lungum, öndunarörðugleika og hósta.
"Ég varð líka dálítið hræddur, en ég fór einn í sund," sagði Aron Gauti sem var nýkominn út úr búningsklefanum þegar slysið varð. "Ég fór aðeins ofan í en svo sá ég gulgrænan reyk koma upp úr kjallaranum og fann skrýtna lykt. Síðan sá ég að allir hlupu upp úr og byrjuðu að hósta. Ég hélt niðri í mér andanum og fór út. Svo þurfti ég strax að fara til læknis," segir hann og bætir við að sér hafi brugðið mjög mikið við slysið.