Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS, stendur nú fyrir aðgerðum í afgreiðslu Skattstjórans í Reykjavík sem miða að því að hindra aðgang almennings að álagningarskrám sem þar liggja frammi. Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, segir aðgerðirnar miða að því að vernda persónuupplýsingar sem yfirvöld heimti af almenningi, vinni síðan úr og leggi á glámbekk. „Þetta er ósómi sem við ætlum okkur að stöðva,” sagði hann í samtali við blaðamann mbl.is í dag. „Þetta eru persónuupplýsingar sem snerta einkahagi einstaklinganna í landinu.”
Borgar sagði aðgerðirnar fara þannig fram að sjö til átta manns á vegum sambandsins séu á staðnum þar sem þeir skiptist á um að skoða skrárnar þannig að aðrir komist ekki í þær. „Við skoðum ekki upplýsingarnar heldur skoðum bara skrárnar utan frá,” sagði hann. Þá sagði hann a.m.k. tvo einstaklinga hafa gefist upp á að bíða eftir að komast í skrárnar frá því aðgerðirnar hófust klukkan hálf tólf í morgun og að töluverð biðröð væri á staðnum. Hann vissi þó ekki hvort fólkið biði eftir því að komast í skrárnar eða eftir annarri þjónustu.
„Það að fólk skuli koma inn með lista, með nöfnum manna sem það ætlar að skoða upplýsingar um, sýnir að þetta eru persónunjósnir og ekkert annað. Þetta er ekki skattaeftirlit heldur njósnir um samborgarana,” sagði hann.
Þá kvaðst hann ekki líta svo á að aðgerðir sambandsins brytu gegn rétti almennings til að nálgast opinberar upplýsingar þar sem hann teldi upplýsingarnar ekki eiga að vera opinberar.
Jónína Jónasdóttir, varaskattstjóri í Reykjavík, segir að ekki standi til að grípa til ráðstafana vegna aðgerða unga fólksins svo lengi sem aðgerðirnar trufli ekki starfsemi embættisins. Segir Jónína, að embættinu beri samkvæmt lögum að birta álagningarskrána og við það hefði verið staðið.
Samkvæmt heimildum blaðamanns Morgunblaðsins á staðnum kom til minniháttar átaka á milli manns sem vildi komast í skrárnar og liðsmanna SUS. Eftir að maðurinn hafði togast á við unga fólkið um möppur með álagningarskránum kvartaði hann við starfsfólk skattstofunnar, sem hleypti honum inn fyrir afgreiðsluborð þar sem hann fékk að skoða skrárnar.