Útibekkur fannst eftir að að frétt birtist á mbl.is

Týndur útibekkur, sem umhverfishópur Vinnuskóla Reykjavíkur lýsti eftir í dag, er fundinn. Reyndist starfsmaður Reykjavíkurborgar á bækistöðinni í Jaðarseli hafa fjarlægt bekkinn, eftir að skemmdir voru unnar á bekknum og hann dreginn út í Elliðaár.

Starfsmaðurinn las frétt í dag á mbl.is, um útibekkinn, sem hvarf af bökkum Elliðaáa fyrir neðan Fella- og Hólakirkju í Breiðholti. Starfsmaðurinn sagði, að sennilega hafi gleðskapur verið haldinn á svæðinu og bekkurinn verið notaður. Skemmdir voru unnar á bekknum og hann að lokum dreginn út í árnar. Tómar bjórdollur voru á svæðinu og rusl og annað sætisborð útibekksins var brotið. Starfsmaðurinn fjarlægði bekkinn og kom honum í skjól í bækistöðinni í Jaðarseli.

Málið telst upplýst og ætlar Jóhann Jökull Ásmundsson, leiðbeinandi umhverfishóps Vinnuskólans, að sækja bekkinn á þriðjudaginn, gera við hann og koma honum fyrir aftur á betri stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert