Dvergarnir sjö úr Disney-myndinni um Mjallhvíti sáu ástæðu til að senda frá sér fréttatilkynningu í tilefni þess að á þingi stjarnfræðinga var ákveðið að skilgreina Plútó sem dverg en ekki stjörnu.
Hljóðaði yfirlýsing dverganna á þá leið að þeim þætti ekki slæmt ef hundurinn sem fylgt hefur Mikka Mús allt síðan 1930, sama ár og plánetan Plútó var uppgötvuð, yrði áttundi dvergurinn í hópnum. Mikka mun þykja þetta tilstand allt hið bjánalegasta og segir Plútó engan áhuga hafa á stjarnfræði, nema þá helst að hann ýlfri á tunglið endrum og sinnum.
Hvorki Mikki né dvergarnir tjáðu sig um það af hverju Plútó hvorki talar né klæðist fötum, ólíkt Guffa sem mun þó líka vera hundur.