Nýtt arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar var kynnt á stjórnarfundi Landsvirkjunar í dag, að sögn Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar voru forsendur miðaðar við stöðu verksins eins og það er í dag, þ.e. byggingarkostnað, álverð og gengi Bandaríkjadals.
Er í nýja matinu miðað við að arðsemi verði ekki jafn mikil og áður var miðað við, eða 11,9% miðað við 12,8% áður. Arðsemiskrafan var 11% og er áætluð arðsemi því enn yfir þeim mörkum.
Núvirtur hagnaður af verkefninu, yrði því 4,3 milljarðar í stað 6,5 áður, umfram þá kröfu sem gerð var um ávöxtunarkröfu af eigin fé, eða 0,9% yfir eiginfjárkröfu í stað 1,8% áður.
Þegar svonefnd eigendanefnd, sem eigendur Landsvirkjunar skipuðu til að fjalla um arðsemi og fjárhagslega áhættu af virkjuninni, skilaði niðurstöðu árið 2003, voru yfirgnæfandi líkur taldar á jákvæðri ávöxtun eiginfjár. Þá var við það stuðst að í samningi um raforkusölu og raforkuverð er kveðið á um að Alcoa ábyrgist kaup á 85% af samningsbundinni raforku í 40 ár, sem sé mikilvæg trygging fyrir seljanda orkunnar.