Flokksráðsfundi Vinstri grænna lauk á hádegi, Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir fundinn hafa verið kraftmikinn og góðan og að létt hafi verið yfir fólki og baráttuhugur ríki. Á fundinum var m.a. ákveðið að halda næsta landsfund í upphafi árs, líklega nálægt mánaðarmótum febrúar og mars, og hafa hann lið í kosningaundirbúningnum fyrir næstu alþingiskosningar.
Á fundinum voru samþykktar ályktanir um vaxandi misskiptingu í tíð ríkisstjórnarinnar, stuðning við lífræna framleiðslu í landbúnaði auk þess sem tekið var undir samþykkt þingflokks og flokksstjórnar um áskorun á stjórnvöld um að fresta fyllingu hálslóns, þá var bætt við þá ályktun um nauðsyn þess að kanna vinnubrögð ríkisstjórnar og fyrrv. iðnaðarráðherra. Auk þess var samþykkt ályktun þar sem brottför hersins er fagnað og á því vakin athygli að bandaríski fáninn hafi verið dreginn af húni í gær, um það leyti sem fundur VG hófst.
Segir Steingrímur létt hafa verið yfir fólki og baráttuhug mikinn, og að flokksfólk sé ákveðið í að halda þeim glaðbeitta stíl sem einbeitt hefur flokkinn, enda sé byrinn hressilega með honum.
Ekki var frekar rætt, umfram það sem þegar er komið fram, um hugsanlega samvinnu stjórnarandstöðuflokkanna um að stilla sér upp sem valkosti gegn ríkisstjórnarflokkunum.