Hópur unglinga kastaði grjóti og flöskum að lögreglu

mbl.is/Júlíus

Lögregla þurfti að beita kylfum gegn hópi unglinga í nótt sem kastaði grjóti og flöskum að lögreglu, gistu tíu fangageymslur. Lögregla var kölluð að hraðbanka í Skeifunni um klukkan tuttugu mínútum fyrir eitt í nótt vegna þess að menn væru að kasta af sér þvagi í hraðbanka, þegar lögregla kom á staðinn voru þar fyrir um 150 – 200 unglingar með ólæti.

Þegar lögregla hafði afskipti af manni þar vegna líkamsárásar veittist hópurinn að lögreglu og þurfti hún að hörfa undan og var kastað grjóti og flöskum aö lögreglubílnum. Var þá allt tiltækt lið sent á svæðið og komu um þrjátíu lögreglu- og sérsveitarmenn á svæðið. Hópurinn hlýddi ekki fyrirmælum um að tvístra hópnum og þurfti lögregla að beita kylfum gegn unglingum sem veittust að lögreglumönnum. Tíu gistu fangageymslur.

Ekki er staðfest hvaða erindi hópurinn átti á staðinn, en talið er að um teiti framhaldsskólanema hafi verði að ræða.

Mikil ölvun var í miðborginni í nótt og mannfjöldi og höfðu leigubílar ekki undan að ferja fólk til síns heima. Einn maður klifraði á mæni húss og féll niður, og er hann á gjörgæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert