Afar sjaldgæft er að munum sé stolið af leiðum í kirkjugörðum að sögn Þórsteins Ragnarssonar, forstjóri kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.
Í lesendabréfi sem birtist í Morgunblaðinu kom fram að stytta hefði verið söguð af leiði í Fossvogskirkjugarði, en styttan hafði verið steypt niður á leiðið. "Það kemur einstaka sinnum fyrir að hlutir eru teknir og skemmdir líka, því miður," segir hann. Stundum sé þetta gert af óvitahætti, svo sem þegar börn rekast á hluti í garðinum.
Í því tilfelli sem greint var frá í lesendabréfi Morgunblaðsins hafi komið fram að styttan hafi verið söguð af og þá horfi öðru vísi við.
"Það er mjög óalgengt og heyrir undantekningum til," segir Þórsteinn. Að styttum við leiði sé stolið eða þær sagaðar af, sé sem betur fer afar sjaldgæft.
"Einstaka sinnum kemur þetta upp og þarna er náttúrulega bara um sjúka einstaklinga að ræða," segir Þórsteinn.