eftir Berg Ebba Benediktsson
bergur@mbl.is
AF ÞEIM 19 sem týnt hafa lífi í umferðinni á árinu er ljóst að a.m.k. átta þeirra hefur verið fórnað fyrir fífldirfsku og leikaraskap. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umferðarstofu þar sem boðað er til borgarafundar á sjö stöðum á landinu klukkan 17.15 á morgun. Yfirskrift fundanna er "Nú segjum við stopp".
Tilefni fundanna, sem allir verða með sambærilegu yfirbragði, er að vekja fólk til umhugsunar um þá öldu umferðarslysa sem skollið hefur á landsmönnum að undanförnu.
Í tilkynningu segir að þörf sé á róttækri hugarfarsbreytingu í umferðinni. Þegar hafi 19 manns látist í umferðarslysum á árinu og mörg slysanna megi rekja til áhættuhegðunar ökumanna.
Á fundunum verða flutt stutt erindi fólks sem hefur upplifað það áfall sem fylgir alvarlegum umferðarslysum. Enn fremur munu lögreglu- og sjúkraflutningamenn lýsa reynslu sinni af vettvangi auk þess sem samgönguráðherra flytur þjóðinni ávarp sitt í Reykjavík. Stutt tónlistaratriði verða á milli erinda og öllum fundunum lýkur með bæn.
"Það kom upp sú krafa bæði innan Umferðarstofu og samgönguráðuneytisins að bregðast með afgerandi hætti við þeirri hörmulegu þróun sem hefur átt sér stað í umferðinni," segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, og bætir við að þörfin sé brýn í ljósi þess að stór hluti slysanna á þessu ári orsakist af áhættuhegðun og ofsaakstri. Í kjölfar fundanna verður svo farið af stað með undirskriftasöfnun þar sem ökumönnum er gert að horfast í augu við ábyrgð sína. "Þetta er sérstakt fyrirbæri sem hefur ekki verið prófað áður. Með þessu erum við að reyna að vekja upp almenna vitund fólks fyrir þeirri ábyrgð sem það ber í umferðinni. Maður skrifar undir áheit og það má segja að sá sem treysti sér ekki til að skrifa undir sé óhæfur til að taka þátt í umferðinni," segir Einar Magnús.
Fundirnir verða haldnir í Hallgrímskirkju í Reykjavík, Stapanum Reykjanesbæ, sal Menntaskólans á Selfossi, Akureyrarkirkju, Borgarneskirkju, sal Menntaskólans á Egilsstöðum og Ísafjarðarkirkju.