Slasaðist illa í myrkvuninni

Elísabet Arnardóttir
Elísabet Arnardóttir mbl.is/Ómar

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

GANGANDI vegfarendur hirtu ekki um að stoppa og bjóða fram aðstoð þegar þeir gengu fram á Elísabetu Arnardóttur liggjandi blóðuga og beinbrotna á gangstétt í Borgartúninu eftir að hafa hjólað á kant og dottið af hjólinu á meðan borgin var myrkvuð á fimmtudagskvöldið.

"Ég fór á kertafleytinguna á Tjörninni klukkan 10 og hjólaði svo heim til mín eftir það," segir Elísabet. "Það var heilmikið myrkur í Borgartúninu og ég hjólaði heldur greitt og lenti á kanti. Ég flaug af hjólinu og lenti illa."

Við fallið rifbeinsbrotnaði Elísabet og braut auk þess olnboga á hægri handlegg, marðist illa og hruflaðist. Hún segir hjálminn hafa bjargað höfðinu, en hann sé illa farinn.

"Ég fann mikið til eftir fallið, það var sárt að anda vegna rifbeinsbrotsins. Ég skreiddist upp á gangstétt og skildi hjólið eftir. Ég var vönkuð, blóðug, aum og hálfgrátandi, enn með hjálminn á hausnum. Ég var búin að hringja á hjálp og lá á gangstéttinni þegar bar að par, vel klætt fólk um fimmtugt."

Elísabet segir augljóst að fólkið hafi séð hana í ljósi frá búð skammt frá. "Þau tóku sveig framhjá mér, svona hálfan metra frá mér. Konan leit á mig, en hvorugt þeirra sagði orð. Þau gengu bara burt án þess að segja nokkuð eða bjóða hjálp."

Hún sagði ekkert við fólkið, enda hjálp á leiðinni. "En eftir á fannst mér það óhuggulegt að geta gengið framhjá slasaðri manneskju án þess að hægja einu sinni á göngunni."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert