Jón Sigurðsson gagnrýnir bók Andra Snæs, Draumalandið

Þau stóriðju­verk­efni sem nú eru helst á döf­inni, við Húsa­vík, í Helgu­vík, og í Straums­vík, eru á veg­um heima­manna og und­ir stjórn þeirra og sjálf­stæðra fyr­ir­tækja en ekki und­ir for­ræði iðnaðarráðuneyt­is­ins. Þetta kom fram í ræðu Jóns Sig­urðsson­ar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á fundi Sam­taka iðnaðar­ins und­ir yf­ir­skrift­inni Nátt­úru­vernd og nýt­ing nátt­úru­auðlinda, í dag. Í ræðu sinni gagn­rýndi iðnaðarráðherra margt sem kem­ur fram í bók Andra Snæs Magna­son­ar, Draumalandið en sagði jafn­framt að bók­in væri tíma­bær og skemmti­leg og margt í henni er heill­andi og aðlaðandi eins og annað sem þessi höf­und­ur hef­ur látið frá sér fara.

Að sögn Jóns er Kára­hnjúka­virkj­un og það sem henni teng­ist eitt það síðasta sem til­heyr­ir gamla kerf­inu sem var í gildi til árs­ins 2003 en þá lauk stóriðju- og virkj­ana­stefnu ís­lenskra stjórn­valda, með breyt­ing­um sem þá voru gerðar á stjórn­sýslu og um­hverfi á þess­um vett­vangi.

Fram kom í ræðu Jóns að afstaða lang­flestra Íslend­inga til vernd­un­ar og nýt­ing­ar auðlind­anna er sama afstaða og rík­is­stjórn­in og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn aðhyll­ast.

„Lang­flest­ir eru í senn nýt­ing­arsinn­ar og vernd­un­ar­sinn­ar og sjá ekki and­stæðu í þessu. Aðeins ör­fá­ir vilja ham­ast áfram með fram­kvæmd­ir sem víðast, og aðeins ör­fá­ir aðrir vilja stöðva all­ar fram­kvæmd­ir og ný verk­efni. Eins og all­ir vita bland­ast heit­ar til­finn­ing­ar inn í þetta, vís­inda­leg­ur metnaður og margs kon­ar sár­indi og mis­skiln­ing­ur.

Meg­in­stefna Íslend­inga miðar að því að þroska hér þekk­ing­ar­sam­fé­lag með fjöl­breyttu at­vinnu­lífi og fram­taki, en orka og iðnaður eru aðeins hluti af þessu.

Næsti megin­áfangi verður, að minni hyggju, gerð heild­stæðrar ramm­a­áætl­un­ar um nýt­ingu og vernd nátt­úru­auðlind­anna. Þetta verður sam­eig­in­legt verk­efni sem á að geta stuðlað að víðtækri sátt meðal þjóðar­inn­ar um þessi mik­il­vægu mál­efni.

Margt hef­ur verið talað og skrifað um þessi mál að und­an förnu. Fyr­ir nokkru kom út bók­in Draumalandið eft­ir Andra Snæ Magna­son. Þetta er skemmti­leg og vel skrifuð bók með þeim geðþekka og aðlaðandi blæ sem ein­kenn­ir önn­ur verk höf­und­ar­ins.

Meg­in­stef bók­ar­inn­ar eru hríf­andi:

Við þurf­um að losa um viðjar tækni­hyggju og efn­is­hyggju og losa um þær viðjar sem al­menn­ar umræður hafa lagt á ímynd­un­ar­afl og ný­sköp­un­ar­mátt; - við eig­um að ve­fengja ráðandi viðhorf og benda á mögu­leika og úrræði önn­ur en virkj­an­ir og stóriðju; - höf­und­ur vill hjálpa les­anda að sigr­ast á ótta við þessa ve­feng­ingu og ótta við aðrar leiðir sem til greina koma.

Þetta er góður og tíma­bær boðskap­ur, - en ég hef líka ýms­ar at­huga­semd­ir að gera við mál­flutn­ing­inn í bók­inni.

Á 101. bls. er fjallað um mögu­leika til að kom­ast út úr vand­ræðum og öngstræti í sam­fé­lagsþróun, en þetta er gert með þeim hætti sem kynni að ýta um of und­ir kæru­leysi í rök­færsl­um.

Þar er boðað að þjóðin geti kom­ist „út úr kreppu­hugs­un­inni" eins og það er orðað. En þarna er ekk­ert til skýr­ing­ar á margra ára­tuga reynslu á lands­byggðinni í at­vinnu­hnign­un og skorti á ný­sköp­un.

Höf­und­ur­inn skaut­ar yfir vanda­mál í byggðaþróun margra ára­tuga eins og ekk­ert sé. Það er sem sé fátt lagt fram til að mæta þeim sögu­legu og efna­hags­legu for­send­um sem liggja til grund­vall­ar ákvörðunum stjórn­valda og heima­manna.

Á 151. bls. er skyndi­leg teng­ing yfir í stór­fram­kvæmd­irn­ar á Aust­ur­landi. Þessi teng­ing er mjög mik­il­væg fyr­ir all­an þann málstað sem bók­in kynn­ir og all­an mál­flutn­ing höf­und­ar­ins í bók­inni yf­ir­leitt.

Um­fjöll­un í bók­inni um stór­fram­kvæmd­irn­ar á Aust­ur­landi hvíl­ir á þeim grunni að ein­mitt þessi teng­ing, á 151. bls., sé ótví­ræð og rökvís­lega rétt­mæt. Þessi teng­ing í les­mál­inu er gerð með mjög hug­vit­sam­leg­um hætti sem þó verður ekki tal­inn laus við áróður. Þessi tengsl eru nefni­lega ekki rökvís­lega nauðsyn­leg eða ótví­ræð mál­efna­leg álykt­un.

Ég get til dæm­is vel tekið und­ir flest fram­an af í bók­inni, en verið samt ósam­mála teng­ing­unni á 151. bls.

Ég get tekið und­ir með höf­und­in­um um þau heill­andi stefnumið bók­ar­inn­ar sem ég taldi upp áður, án þess í sjálfu sér að ég sé með því að láta í ljós ein­hverja til­tekna skoðun á til­tekn­um verk­leg­um fram­kvæmd­um.

Teng­ing­in yfir í stór­fram­kvæmd­irn­ar fyr­ir aust­an er þess vegna ekki sann­fær­andi á þann hátt sem greini­lega vak­ir fyr­ir höf­und­in­um. Rök­legu tengsl­in og for­send­urn­ar fyr­ir álykt­un­um hans stand­ast því ekki með þeim hætti sem höf­und­ur­inn stefn­ir að.

Les­andi kann að kjósa að fylgja mál­flutn­ingi höf­und­ar, ef les­and­an­um þá þókn­ast af öðrum ástæðum, en rök­semda­færsl­an í bók­inni næg­ir ekki til þess. Mikið af rök­semda­færsl­unni í bók­inni er ádeila á skrif eins nafn­greinds manns og hef­ur þar af leiðandi tak­markað al­mennt gildi.

Á 176. bls. gagn­rýn­ir höf­und­ur að Ísland skuli hafa verið kynnt sem "ódýr orka".

En stofn­un­in sem þetta boðaði hef­ur m.a.s. verið lögð niður og verk­efn­um henn­ar hætt af op­in­berri hálfu. Ef „ódýr orka" er for­senda fyr­ir gagn­rýni höf­und­ar, þá má ætla að afstaða hans mót­ist af kröfu um hærra verð fyr­ir ork­una.

En mál­flutn­ing­ur­inn í bók­inni miðast þó all­ur við and­stöðu við verk­leg­ar fram­kvæmd­ir af öðrum ástæðum. Í þessu er æp­andi mót­sögn í málsmeðferð höf­und­ar­ins og skaðar í raun málstað hans.

Les­andi verður ekki al­veg viss um það hvort höf­und­ur­inn boðar and­stöðu gegn stór­virkj­un­um vegna nátt­úru­vernd­ar­sjón­ar­miða eða hann gagn­rýn­ir orku­sölu­samn­ing­ana vegna þess að þeir gefi ekki nægi­leg­an gróða.

Marg­ir áköf­ustu virkj­ana­sinn­ar munu ef­laust taka heils­hug­ar und­ir kröfu um sem allra hæst verð. En varla er það ætl­un höf­und­ar­ins að styðja mál­flutn­ing þeirra.

Enn er þess að geta að Íslands­kort á 179. og 183. bls. eru mjög vill­andi eins og hver maður get­ur séð sem ferðast um landið. Á 255. bls. er mjög hæp­inn og kæru­leys­is­leg­ur sam­an­b­urður við ár­ang­ur margra ára­tuga starfs í Rovaniemi í Finn­landi og látið að því liggja að slík­ur ár­ang­ur kunni að vera auðveld­ur og skjót­feng­inn.

Bók­inni lýk­ur með fynd­inni léttúð á 259. bls., - en sann­leik­ur­inn er sá að það rist­ir ekki dýpra þarna, held­ur er þetta aðeins fyndni og léttúð og skaðar málstaðinn líka þótt skemmti­legt sé og lýsi frjóu ímynd­un­ar­afli og hug­kvæmni höf­und­ar­ins.

Höf­und­ur ber þarna sam­an verðmat á mann­virkj­un­um á Aust­ur­landi við verðmat á stór­fyr­ir­tæk­inu Disney, en les­and­inn er engu nær um rök­legt sam­hengi.

Höf­und­ur ímynd­ar sér að frægt lista­verk Ólafs Elías­son­ar fylli hvelf­ing­una miklu sem graf­in hef­ur verið inn í fjall þar eystra, - en les­and­inn spyr: Er þetta gam­an­semi um lista­mann­inn Ólaf Elías­son, eða um þetta lista­verk hans, - eða gef­ur höf­und­ur­inn hér ímynd­un­ar­afli sínu og gam­an­semi laus­an taum­inn al­veg út í blá­inn? Þetta minn­ir nefni­lega á orð hans á öðrum stað í bók­inni þar sem hann tal­ar um „full­kom­inn fiðrilda­heim".

Höf­und­ur­inn ve­feng­ir eins og ég sagði áður, og það er rétt­mætt og tíma­bært að ve­fengja. En það má líka ve­fengja mál­flutn­ing hans sjálfs eins og ég hef nefnt dæmi um. Ég er sem sagt gagn­rýn­inn m.a. á teng­ing­una sem birt­ist allt í einu á 151. bls. og óánægður með ým­is­legt annað í bók­inni. En hún er tíma­bær og skemmti­leg og margt í henni er heill­andi og aðlaðandi eins og annað sem þessi höf­und­ur hef­ur látið frá sér fara," seg­ir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert