Fundist hafa mítlur í döðlupakkningum frá Himneskri hollustu, dagsettum 30.05.07. og 31.07.07. Mítlurnar eru í litlu magni og algjörlega skaðlausar, að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Himnesk hollusta hefur ákveðið að innkalla allar sendingar með þessum dagsetningum.
Mítlur eru örlitlar áttfætlur sem þrífast víðsvegar í umhverfinu og geta sumar tegundir þeirra lagst á matvæli. Þær eru ekki taldir hættulegir heilsu manna, að því er segir á vef Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar.
„Himnesk hollusta hefur frá upphafi lagt metnað sinn í að selja hágæða matvöru, bæði lífrænt ræktaða og vistvæna, á íslenskum markaði og harmar því óþægindin sem af þessum mistökum hefur hlotist. Varan verður að fullu endurgreidd við skil," að því er segir í tilkynningu.