Fagna því að föstunni sé lokið á Eid al-Fitr

Frá Eid al-Fitr hátíðarhöldum í gær
Frá Eid al-Fitr hátíðarhöldum í gær Yousef Ingi Tamini

eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

HÁTÍÐIN Eid al-Fitr hófst í gærmorgun, daginn eftir að föstumánuðurinn Ramadan rann sitt skeið á enda. Múslímar um allan heim fögnuðu lokum föstunnar, þeirra á meðal um 70 manns sem komu saman í mosku í Ármúla í Reykjavík.

Hátíðahöldin byrjuðu með stuttri bæn en síðan hófust veisluhöldin. "Við gleðjumst yfir því að hafa fastað í Ramadan-mánuði. Við erum glöð yfir því að guð hafi vonandi samþykkt okkar bænir. Þetta er svipað og jól, krakkarnir eru í nýjum fötum og við skiptumst á gjöfum," sagði Salmann Tamimi, formaður Félags múslíma á Íslandi.

Eid al-Fitr er þriggja daga hátíð en eiginleg hátíðahöld eru þó aðeins fyrsta daginn, að sögn Salmanns.

Hver og einn sem tók þátt í veislunni í gærmorgun lagði til mat með sér og því varð úrvalið hið fjölbreytilegasta en m.a. var boðið upp á kökur og ýmiss konar rétti frá Indónesíu, Eritreu og Egyptalandi. "Allir komu með eitthvað með sér. Þetta var mjög alþjóðlegt."

Ekkert mál að fá frí

Salmann líkir hátíðahöldunum við jól kristinna manna en munurinn á þessum tveimur hátíðum er m.a. sá að hér á landi eru vinnuveitendur bundnir af lögum til að gefa starfsmönnum frí um jólin, eða borga yfirvinnukaup ella, en engin ákvæði eru í lögum um að múslímar fái frí á Eid al-Fitr.

Aðspurður sagði Salmann að hann vissi ekki til þess að nokkur hefði átt í vandræðum með að fá frí, hvorki úr vinnu né skóla. Raunar hefði þetta aldrei verið vandamál hér á landi, eftir því sem hann vissi best.

Í hnotskurn
» Um 350 manns eru skráðir í Félag múslíma á Íslandi en Salmann telur að heildarfjöldi múslíma á Íslandi sé um 800.
» Hátíðahöldin á Eid al-Fitr hefjast með bæn en síðan hefst veisla.
» Spámaðurinn Múhameð, fylgismenn hans og ættingjar héldu fyrst upp á Eid al-Fitr árið 624 e.Kr.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert