Í vikunni sem leið var lögreglu tilkynnt um tvo ölvaða menn sem voru með ólæti í flugstöðinni í Vestmannaeyjum, en þeim hafði verið meinað að fara með flugvél Flugfélags Íslands til Reykjavíkur sökum ástands þeirra. Eitthvað urðu þeir víst ósáttir við þetta og endaði það með handalögmálum á milli starfsmanna Flugfélags Íslands og þessara tveggja manna. Þurfti lögreglan að skakka leikinn og fjarlægja mennina.
Að kvöldi 28. október var lögreglu tilkynnt um að vegavísir á gatnamótum Vestmannabrautar og Bárustígar hafi verið skemmdur. Þar sem ekki liggur fyrir hver þarna var að verki óskar lögreglan eftir upplýsingum frá þeim sem geta bent á þann sem olli þessum skemmdum.
Einn fékk að gista fangageymslu lögreglustöðvarinnar eftir skemmtanahald helgarinnar, en hann hafði verið til óþurftar í Höllinni.
Þá var einn tekinn fyrir of hraðan akstur í vikunni en hann mældist á 72 km/klst. á Hamarsvegi.