Fjórir þingmenn úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að mannanafnanefnd verði lögð niður og sömuleiðis mannanafnaskrá. Segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu, að það sé samið með það í huga, að réttur foreldra til að ráða nafni barns síns sé mikill og óumdeildur en veikari stoðir standi undir beinum afskiptum ríkisins eða löggjafans af slíkum ákvörðunum.
Björn Ingi Hrafnsson, varaþingmaður Framsóknarflokks, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Í greinargerðinni segir, að núgildandi lög hafi sætt mikilli gagnrýni, einkum varðandi mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Þess séu jafnvel dæmi að nöfnum hafi verið hafnað enda þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir. Hafi þetta orðið tilefni mikilla sárinda og deilna.
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að lögboðið hlutverk mannanafnanefndar verði flutt til dómsmálaráðherra og það verði hlutverk hans að skera úr álitamálum sem kunni að koma koma í sambandi við nafngiftir, nafnritun o.fl. Sú meginregla verði hins vegar í gildi, að almennt skuli gert ráð fyrir að nöfn séu leyfð og aðeins sérstakar aðstæður í undantekningartilfellum geti orðið til þess að ríkisvaldið komi í veg fyrir slíkt. Slíkar aðstæður geti t.d. verið hreinar nafnleysur eða að ljóst sé að nafn geti orðið nafnbera til ama.