Fjöldi fólks lenti í vandræðum í ófærð

mbl.is/Sverrir

Fjöldi fólks lenti í vandræðum við að komast til síns heima í nótt, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík. Þurfti að kalla út strætisvagna til að ferja fólk á milli staða þar sem nánast enga leigubíla var að fá vegna ófærðar. Björgunarsveitir voru kallaðar út og hafa þær verið að störfum frá klukkan fjögur í nótt á höfuðborgarsvæðinu. Hafa þær sinnt yfir eitt hundrað verkefnum, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Að sögn varðstjóra í lögreglunni var nóttin mjög annasöm en það byrjaði að snjóa um hálf tólf leytið í gærkvöldi. Búið er að ryðja helstu leiðir en þungfært er í úthverfum borgarinnar. Er þetta lausamjöll og hætt við því að ef hvessir þá verði fljótt ófært.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var talsverður fjöldi í miðbænum þegar færð tók að þyngjast í nótt. Ekki var mikið um umferðaróhöpp þrátt fyrir snjókomuna og engin stórvægileg óhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík.

Mikið annríki hefur verið í nótt og í morgun hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna mikillar snjókomu, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu.

Nú eru 16 hópar frá níu björgunarsveitum að störfum og hafa þeir fengið vel yfir 100 verkefni.

Verkefnin hafa verið af margvíslegum toga en flest tengjast þau umferð og bílum sem fastir eru í snjó. Mestu vandræðin hafa skapast á Víkurvegi, brúnni sem liggur upp á hann frá Vesturlandsvegi og aðreinum þar. Um þessar mundir er unnið mikið að því að aðstoða heilbrigðisstarfsfólk í að komast til vinnu.

Svæðisstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu kom saman í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í nótt og er enn að störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert