„Við vissum að það væri spáð snjókomu, en það datt engum í hug að það yrði allt ófært í Reykjavík. Enda bauð veðurspáin ekki upp á það," segir Guðni Hannesson, yfirverkstjóri sem hefur yfirumsjón með snjóhreinsun og saltdreifingu á götum Reykjavíkur.
Aðspurður segir hann að alla daga vikunnar nema sunnudaga sé menn komnir af stað kl. þrjú á nóttunni við að ryðja götur og bera á þær salt. Á sunnudögum sé hins vegar fyrst farið af stað kl. sex. Segir hann menn hafa verið kallaða út klukkutíma fyrr en venjulega í gærmorgun þegar ljóst var í hvað stefndi og þá verið sendir af stað tíu bílar auk þess sem kallaðar hafi verið til 12-15 aukavinnuvélar. Strax í morgunsárið hafi hins vegar nokkur fjöldi bíla þegar verið búinn að festa sig og því hafi hreinsun gatna gengið hægt.
Aðspurður hvort ekki sé ástæða til þess að fylgjast betur með færðinni segir Guðni býsna óvenjulegt ástand hafa myndast nú um helgina og að snjómagnið hafi komið mönnum á óvart. „Við teljum okkur vera með góða vakt á þessu, en það er aldrei hægt að fyrirbyggja allt. Það er alltaf gat. Við getum ekki vaktað þetta allan sólarhringinn, enda höfum við ekki mannskap í það."
Aðspurður sagði Guðni að unnið yrði lengi frameftir í gærkvöldi til að tryggja að allar stofnbrautir og stærri götur yrðu ruddar nú í morgun, en hins vegar gætu minni götur þurft að bíða fram eftir degi.