Sami bíll hefur tvívegis lent á öryggisbita í Hvalfjarðargöngum

Flutn­inga­bíl frá Flytj­anda var ekið á ör­ygg­is­bita í suður­munna Hval­fjarðarganga í gær­kvöld og þar sat hann fast­ur. Lög­regla stjórnaði um­ferð fram hjá bíln­um til að byrja með en göng­un­um var síðan lokað al­veg á meðan bíll­inn var losaður og ör­ygg­is­búnaði þeirra komið í samt lag á ný. Fram kem­ur á heimasíðu Spal­ar að þetta sé í annað skipti á þrem­ur mánuðum sem sami bíll lend­ir í vand­ræðum í göng­un­um vegna of hás farms.

Að sögn Spal­ar var bíll­inn var á leið norður í land með stór­an blás­ara á vagni. Lög­leg há­marks­hæð farms er 4,2 metr­ar en mæl­ing lög­reglu leiddi í ljós að hæð farms­ins var 4,62 metr­ar, þ.e.a.s. ríf­lega 40 senti­metr­ar um­fram það sem lög kveða á um. Stál­biti, sem er yfir ganga­munn­an­um til að verja blás­ara og ann­an búnað gang­anna, losnaði úr fest­ing­um sín­um beggja vegna en hékk uppi í ör­yggis­keðjum. At­vikið átti sér stað um kl. 18 í gær, þegar um­ferð er hvað mest í göng­un­um, og olli mikl­um um­ferðart­öf­um.

Bíl­stjóri sama flutn­inga­bíls reyndi að troða sér í gegn­um Hval­fjarðargöng með allt of háan farm fyr­ir tæp­lega þrem­ur mánuðum og ruddi stál­bita úr báðum fest­ing­um, ná­kvæm­lega eins og gerðist í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert