Flutningabíl frá Flytjanda var ekið á öryggisbita í suðurmunna Hvalfjarðarganga í gærkvöld og þar sat hann fastur. Lögregla stjórnaði umferð fram hjá bílnum til að byrja með en göngunum var síðan lokað alveg á meðan bíllinn var losaður og öryggisbúnaði þeirra komið í samt lag á ný. Fram kemur á heimasíðu Spalar að þetta sé í annað skipti á þremur mánuðum sem sami bíll lendir í vandræðum í göngunum vegna of hás farms.
Að sögn Spalar var bíllinn var á leið norður í land með stóran blásara á vagni. Lögleg hámarkshæð farms er 4,2 metrar en mæling lögreglu leiddi í ljós að hæð farmsins var 4,62 metrar, þ.e.a.s. ríflega 40 sentimetrar umfram það sem lög kveða á um. Stálbiti, sem er yfir gangamunnanum til að verja blásara og annan búnað ganganna, losnaði úr festingum sínum beggja vegna en hékk uppi í öryggiskeðjum. Atvikið átti sér stað um kl. 18 í gær, þegar umferð er hvað mest í göngunum, og olli miklum umferðartöfum.
Bílstjóri sama flutningabíls reyndi að troða sér í gegnum Hvalfjarðargöng með allt of háan farm fyrir tæplega þremur mánuðum og ruddi stálbita úr báðum festingum, nákvæmlega eins og gerðist í gær.