Ráðherra kynnti sjálfvirkan búnað sem sendir neyðarkall úr bílum

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, á umferðarþingi í dag.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, á umferðarþingi í dag.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, kynnti á umferðarþingi í dag verkefni sem verið er að vinna að hjá Evrópusambandinu og nefnist eCall. Verkefnið felst í því að sérstakur búnaður er settur í bíla sem virkar þannig að ef bílinn lendir í árekstri fer búnaðurinn sjálfkrafa í gang, hefur samband við neyðarlínu og sendir stafrænar upplýsingar um staðsetningu bílsins í tölvu neyðarsvarþjónustu. Þá getur ökumaður einnig stutt á hnappinn í neyð.

Hægt verður að hafa samband bæði í GSM talsamband og gagnasamband. Markmiðið er að neyðarþjónusta líkt og 112 geti hvarvetna í Evrópu tekið við skilaboðum frá eCell.

Rannsóknir sýna að með þessu er hægt að stytta viðbragðstíma neyðarþjónustu í þéttbýli um 50% að meðaltali og 40% í dreifbýli. Styttri viðbragðstími leiðir til þess að hægt verður að bjarga fleiri mannslífum og draga úr alvarlegum afleiðingum slysa. Auk þessa má nefna að umferðatafir vegna slysa verða með þessum búnaði styttri og með því minnka líkur á afleiddum árekstrum. Kostnaður og ábatagreiningar fyrir eCall verkefnið gefa til kynna að það sé mjög arðbært.

Ráðherra gat þess að með þessu verkefni skapast einnig viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem hafa framleitt svipaðan búnað, svo sem SAGA ökuritann, en þeir byggja m.a. á fjarskiptum í gegnum GSM fjarskiptakerfi. Ráðherra gerir ráð fyrir að undirrita yfirlýsingu vegna eCall verkefnisins fyrir áramót og mun það koma til framkvæmda hér á landi árið 2009. Gert er ráð fyrir að búnaðurinn verði í öllum nýjum bílum sem koma á markað í Evrópu frá og með árinu 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka