Árs fangelsi fyrir að svíkja mat út úr veitingahúsum

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir að fyrir fjársvik, með því að hafa á þriggja mánaða tímabili á þessu ári pantað og neytt veitinga á fjölda veitingahúsa í Reykja­vík án þess að geta greitt fyrir veitingarnar. Samtals námu þessi fjársvik rúmlega 52 þúsund krónum. Maðurinn hefur verið dæmdur 49 samskonar tilvik frá árinu 2002.

Í dómnum segir, sakaferill mannsins sé með eindæmum. Í þessu máli hafi hann verið sakfelldur fyrir 15 tilvik þar sem hann hafi pantað og neytt veitinga á veitingastöðum án þess að geta greitt fyrir veitingarnar. Í fimm dómum, sem dæmdir voru í Héraðsdómi Reykjavíkur á árunum 2002, 2003, 2004 og 2006, hafi hann samtals 32 sinnum verið sakfelldur fyrir samskonar háttsemi. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands fyrr á þessu ári var maðurinn dæmdur fyrir sama brot og einnig í Héraðs­dómi Reykjaness. Séu tilvikin þá alls orðin 49.

„Háttsemi ákærða er með öllu ólíðandi, en hann hefur margsinnis verið dæmdur fyrir að panta og neyta matar á veitingastöðum án þess að geta greitt fyrir slíkar veitingar. Er nærri að telja að ákærði sé síbrotamaður að þessu leyti og ljóst að hann færist heldur í aukana fremur en hitt, en ekkert þeirra brota er ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir er hegningarauki við fyrri brot," segir í dómnum.

Auk 12 mánaða fangelsis var maðurinn dæmdur til að greiða veitingastöðunum bætur, sem svara til þeirra upphæða sem hann sveik út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert