SÍA: Andstætt hagsmunum neytenda og auglýsenda að taka RÚV af auglýsingamarkaði

Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) lýsir miklum efasemdum um þær hugmyndir að takmarka eigi aðgang Ríkisútvarpsins að auglýsingamarkaði. Þetta var samþykkt á félagsfundi sambandsins í gær, og kemur fram í fréttatilkynningu í dag. „Það er algjörlega andstætt hagsmunum neytenda og auglýsenda að ekki sé möguleiki að auglýsa í Ríkisútvarpinu,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir þar: „Í nútíma upplýsingaþjóðfélagi er það réttur hvers fjölmiðils að eiga kost á að birta neytendum auglýsingar, óháð því hver eignasamsetning miðilsins er. Það hlýtur að teljast sjálfsagt að neytendur eigi kost á sem breiðustu upplýsingamagni í þeim miðli sem þeir nota. Lítil sem engin umræða hefur verið um þessa takmörkun á stöðu neytenda ef RÚV hverfur af auglýsingamarkaði.“

„Félagsfundur SÍA tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt eða rangt sé að hið opinbera standi í rekstri fjölmiðla sem reknir eru að hluta til með auglýsingafé. Ljóst er að með núverandi fyrirkomulagi ríkir ákveðið ójafnvægi í samkeppnisstöðu milli Ríkisútvarpsins og einkarekinna ljósvakamiðla hvað tekjuöflun varðar. Hér er hins vegar bent á þær aðstæður sem koma upp ef aðgangur RÚV að auglýsingamarkaði er takmarkaður að nokkru eða öllu leyti. Auk fyrrnefndra atriða er ekki ólíklegt að minni samkeppni á auglýsingamarkaði geti leitt til fákeppni og jafnvel hækkunar á auglýsingaverði sem aftur geti leitt til hækkunar vöruverðs.“

„Brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði eða skertur aðgangur myndi almennt séð skerða þjónustu við almenning og auglýsendur. Því er það skoðun félagsfundar SÍA að hagsmunum auglýsenda og almennings sé betur fyrir komið með óbreyttu leyfi RÚV til birtinga auglýsinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert