Skátastúlkur slösuðust í fjallgöngu

Tvær stúlkur í skátafélagi í Garðabæ féllu fram af kletti og lentu í urð í fjallgöngu í morgun. Þær eru ekki alvarlega slasaðar en ekki vitað frekar um meiðsl þeirra að svo stöddu. Foreldrar þeirra hafa verið látnir vita. Stúlkurnar voru með fjórum öðrum í göngunni ásamt 17 ára skátaforingja en þau höfðu verið í útilegu í skála við Hafravatn.

Stúlkunum mun hafa skrikað fótur í snjó og þær fallið fram af kletti sem var hvorki þverhníptur né hár. Slökkviliðs-, lögreglu- og björgunarsveitarmenn fóru á svæðið en ekki þurfti að leita að neinum og allir komust niður af sjálfsdáðum. Skátaforinginn og stúlkurnar tvær voru flutt á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert