Ökumaður á flótta undan lögreglu ók í gegnum girðingu á Keflavíkurflugvelli undir morgun og inn á flughlaðið, stökk þar út úr bifreiðinni og hljóp upp landgang flugvélar þar sem lögreglan hafði hendur í hári hans. Lögreglan hafði þá elt hann um stund eftir að bíll hans mældist á ofsahraða á Reykjanesbraut.
Hraði hans mældist mestur rúmlega 140 km, er lögreglan hóf eftirför á Reykjanesbraut. Ók maðurinn sem leið lá í átt til Leifsstöðvar og fór m.a. öfugt í gegnum hringtorg. Er að flugstöðinni kom ók hann yfir sandhrúgu og á girðinguna umhverfis flughlaðið, og rauf hana.
Að sögn lögreglu á maðurinn við geðsjúkdóm að stríða.