Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 70 þúsund króna sekt fyrir að aka bíl óvarlega og of hratt miðað við aðstæður frá bílastæði inn á Austurveg á Selfossi reykspólandi þannig að mikill hávaði og ónæði varð af akstrinum. Í kjölfarið missti maðurinn stjórn á bílnum sem snérist í heilan hring og olli þannig hættu fyrir aðra umferð.
Atvikið náðist á myndband sem lagt var fram í dómnum. Fram kemur í niðurstöðu dómsins, að ökumanninum hafi gefist kostur á að ljúka málinu án dómsmeðferðar með því að greiða 35 þúsund króna sekt og fá 25% afslátt á sektinni ef hún yrði greidd innan mánaðar. Við því varð ökumaðurinn ekki og því var gefin út ákæra.