Fræðimenn betur fallnir en stjórnmálamenn til að fjalla um hleranamálið

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði í utandagskrárumræðu á Alþingi um hleranir í dag, að betur færi á því að fræðimönnum væri falið að fjalla um þessi mál á sagnfræðilegan hátt en að stjórnmálamenn eða nefndir á þeirra vegum fari í gegnum málin og marki ríkissögu í þessum efnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur kynnt drög að þingsályktunartillögu skipun rannsóknarnefndar um hlerunarmálið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna og sagði m.a. að þegar þessi mál væru skoðuð liti út fyrir, að á eftirstríðsárunum hafi Sjálfstæðisflokkurinn ekki litið svo á að hann hefði tímabundið umboð frá kjósendum, þegar hann væri í ríkisstjórn, heldur lægi í sjálfum flokknum, formbundið eða stofnanabundið vald, vegna þess hversu oft hann átti aðild að ríkisstjórn og hann hafi í raun misbeitt ríkisvaldinu og vegið að æru og orðspori þeirra sem urðu fyrir hlerunum.

„Þetta er svartur blettur á sögu þjóðarinnar, sem verður að upplýsa, það verður að leiða sannleikann í ljós í þessum málum til þess að hægt sé að loka þessum kafla í sögu þjóðarinnar," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði nauðsynlegt að Alþingi gangi hreint til verks og skipi rannsóknarnefnd í málinu. Spurði hún Árna M. Mathiesen, sem var til andsvara í forföllum forsætisráðherra, hvort leiðtogar stjórnarflokkanna væru tilbúnir til að styðja drög að þingsályktun í þá veru og sýni þannig og sanni að þeir vilji gera hreint fyrir sínum dyrum.

Árni M. Mathiesen, sagði, að sjálfvirki síminn hefði varla verið kominn í notkun í Reykjavík þegar farið var að hlera samkvæmt dómsúrskurðum og byggt á lagaheimildum. Hins vegar vekti það athygli hvað hlerunartilvik, sem vörðuðu öryggi ríkisins, væru fá og afmörkuð og tengdust aðallega samskiptum við erlenda gesti og heimsóknum erlendra aðila.

Árni sagði merkilegt, að Ingibjörg Sólrún vildi gera hlut Sjálfstæðisflokksins mikinn í þessu máli. Vissulega væri rétt, að flokknum væri umhugað um öryggi ríkisins en það yrði að láta aðra njóta sannmælis í þessum efnum. Nefndi Árni sérstaklega Hermann Jónasson, fyrrverandi forsætisráðherra og ríkisstjórnir hans, þar á meðal stjórnir Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins. Þá sagði hann einnig hlut Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, ekki lítinn og ljóst væri, að ríkisstjórnir á hverjum tíma hafi fylgst vel með því sem var að gerast.

Árni sagði nauðsynlegt að allar upplýsingar komi upp á borðið, og þess vegna hefði verið skipuð nefnd undir formennsku Páls Hreinssonar, prófessors sem ætti að skila niðurstöðu fyrir áramót. Sagði Árni, að betur færi á því að fræðimönnum væri falið að fjalla um þessi mál á sagnfræðilegan hátt en að stjórnmálamenn eða nefndir á þeirra vegum fari í gegnum málin og marki ríkissögu í þessum efnum. Til þess að fræðimenn geti sinnt þessu hlutverki þyrfti að veita þeim aðgang að gögnunum.

Þá sagði Árni, að fara yrði varlega í það, þegar þessi mál væru metin, að fella dóma yfir þeim dómurum sem heimiluðu viðkomandi hleranir.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði ræðu Árna hafa verið stórundarlega en dæmigerða fyrir undanbrögð Sjálfstæðisflokksins í málinu. Árni hefði reynt að klína öllu á Framsóknarflokksins og aðallega þá feðga Hermann Jónasson og Steingrím Hermannsson. Steingrímur sagði, að nefnd Páls Hreinssonar væri ekki rannsóknarnefnd heldur fjallaði aðeins um aðgang fræðimanna að gögnum. Sagði Steingrímur að tregða Sjálfstæðisflokksins til að upplýsa þessi mál væri óskiljanleg. Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tók í svipaðan streng og sagðist ekki skilja hvað menn óttuðust í þessum efnum.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að ræða fjármálaráðherra hafi nánast falið í sér þá ósk, að menn létu þetta mál í friði og það hefði ríkt sérstakt ástand á þeim tímum, sem hleranirnar fóru fram á. En Lúðvík sagði, að málið væri miklu alvarlegra því um hefði verið að ræða geðþóttaákvarðanir ráðherra, sem óskuðu eftir hlerunarheimildum gagnvart einstaklingum án þess að grunur léki á saknæmu athæfi. Nauðsynlegt væri að hreinsa til í þessari sögu.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagði ljóst, að stjórnarandstaðan á þessum tíma hefði verið talin ógna öryggi ríkisins. Enn væri tilhneiging til að skilgreina hverskonar andóf gegn stjórnvöldum sem glæp.

Sæunn Stefánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist ekki skilja hvað Árna hefði gengið til með ummælum sínum um um fyrrum forsætisráðherra Framsóknarflokksins og Ingibjörg Sólrún tók undir það í lok umræðunnar. Árni sagðist ekki hafa verið að hallmæla þeim mönnum, sem hann nefndi, heldur teldi hann það þeim til hróss að þeir hefðu viljað halda vöku sinni þegar öryggi ríkisins var annars vegar. Sagðist hann telja, að Hermann Jónasson væri einn af vanmetnustu stjórnmálamönnum síðustu aldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert