Grímseyjarferja í notkun í mars?

Vonir standa til þess að ný Grímseyjarferja verði tekin í notkun í mars á næsta ári, en upphaflega átti að taka hana í notkun í byrjun nóvember sl. Kostnaður hefur farið um 100 milljónir fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun.

„Auðvitað eru það alltaf vonbrigði þegar verkáætlanir standast ekki en ljósi punkturinn er sá að við erum ekki í tímaþröng með þetta þar sem það skip sem siglir á Grímsey í dag er fullnægjandi ennþá og þess vegna nýtist það okkur fram eftir næsta ári og þess vegna út allt næsta ár," segir Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri.

Skipta þarf út gömlu Grímseyjarferjunni þar sem hún uppfyllir ekki kröfur Evrópusambandsins um ferjusiglingar sem taka gildi í áföngum hér á landi til ársins 2009. Ákveðið var að kaupa skip frá Írlandi sem var afar illa farið og gera við það í stað þess að kaupa nýja ferju.

Gunnar segir að kostnaður við að láta smíða ferju af þessari stærð hafi verið metinn um 7-800 milljónir króna. Með því að fara þá leið að kaupa notað skip og gera það upp, svo það verði eins og nýtt, verði því sparað mikið fé þrátt fyrir að kostnaður sé orðinn mun hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir.

Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir því að kaupa skipið á um 100 milljónir króna og samningur var gerður um viðgerð sem kosta átti aðrar 100 milljónir króna, að sögn Gunnars. Að auki hafi þurft að kaupa vélbúnað fyrir um 50 milljónir króna. Þessu til viðbótar hafi komið 100 milljóna króna óvæntur kostnaður, annars vegar vegna gengisbreytinga en hins vegar vegna þess að skipaskráningarfyrirtækið Lloyds register gerði meiri kröfur en ráð var fyrir gert.

Því stefni í að kostnaður við ferjuna verði um 350 milljónir, komi ekkert fleira upp þar til ferjan verður sjósett og tekin í notkun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert