Heimahrossin í Auðsholti forðuðu sér á þurrt undan flóðinu, meðan hestar sem voru þar í hagagöngu stóðu í vatninu, að sögn Steinars Halldórssonar, bónda í Auðsholti 4. Svo er að sjá að heimahrossin kunni að forða sér undan flóðum.
„Þetta er alveg staðreynd," sagði Steinar. "Ef það gerir svona mikla rigningu færa heimahestarnir sig þangað sem hærra er. Nú voru heimahestar á lokuðu stykki við hliðina á hól í landinu sem getur ekki flætt upp á. Um morguninn voru þeir komnir upp á hólinn. Þeir bara syntu yfir skurðinn og komu sér af lokaða stykkinu þegar vatnið jókst."
Í Auðsholti voru um hundrað hestar í hagabeit. „Þeir hreyfðu sig ekki neitt, ekki fyrr en komið var á báti og þeir voru reknir," sagði Steinar. Hann á sjálfur tólf hross og var búinn að færa þau upp á hól um síðustu helgi. Hann sagði að það hefðu verið fyrirbyggjandi ráðstafanir því hann taldi útlit fyrir að gæti flætt.
Steinar sagði síðdegis í gær að vatnið væri að sjatna í Auðsholti. Ekki sást þá hvort vegurinn hefði skemmst en þó var orðið ljóst að girðingar voru farnar.