Barrtré gegn svifryki

Mengun frá svifryki hefur farið vaxandi Í Reykjavík undafarin misseri.
Mengun frá svifryki hefur farið vaxandi Í Reykjavík undafarin misseri. mbl.is/Brynjar Gauti

Barrtré binda svifryk og ef takast á að draga úr svifryksmagni til að vernda heilsu borgarbúa þarf að stórauka gróðursetningu trjáa samsíða umferðaræðum. Þetta er mat Jóns Geirs Péturssonar, skógfræðings hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Metsvifryksmengun var í borginni vegna flugeldaskota um áramótin.

Fram kemur á heimasíðu Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, að Jón Geir hafi skrifað grein um þetta efni í nýjasta tölublað Fréttabréfs Félags heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa.

Í Reykjavík er uppspænt malbik af völdum nagladekkjanotkunar að vetri til helsta uppspretta svifryks en svifryk er rykagnir sem eiga greiða leið í öndunarfæri manna.

Yfirvöld og borgarbúar þurfa á næstunni að grípa til aðgerða til að ráða bót á svifryksvandanum. Jón Geir bendir á að aukin trjárækt nálægt umferðaræðum sé ein þeirra leiða sem gæti verið vænleg. „Tré geta tekið upp svifryksagnir auk þess sem þær setjast í barr og lauf. Virðast barrtré vera einna virkust við að sía svifryk úr andrúmsloftinu,“ skrifar Jón Geir og vitnar í erlendar rannsóknir því til stuðnings.

Sígræn tré veiða svifryk allan ársins hring, ekki síst á vetrum en þá fer svifryksmengunin gjarnan hátt sakir nagladekkjanotkunar. „Áhugavert væri að mæla hversu mikið svifryk safnast í stikagrenibeltið samsíða Miklubrautinni í Reykjavík,“ segir Jón Geir og að þetta sé möguleiki sem þurfi að skoða betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert