Viðræður milli umhverfisráðherra og Strætó

mbl.is/ÞÖK

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra segir í skriflegu svari á Alþingi, að mikilvægt sé að að ríki og sveitarfélög fari í sameiningu yfir almenningssamgöngur með það að markmiði að bæta rekstrarskilyrði þeirra, en mörg sveitarfélög líti á almenningssamgöngur sem mikilvægan hlekk í samfélagsþjónustu sinni. Umhverfisráðuneytið hefur nú þegar átt fund með fulltrúum Strætó bs. um þessi mál að þeirra ósk.

Í svarinu, sem er við fyrirspurn Björns Inga Hrafnssonar, varaþingmanns Framsóknarflokks, segir að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga sé stöðugt til skoðunar og muni umhverfisráðuneytið beita sér fyrir því að málefni almenningssamgangna verði tekin þar upp.

Björn Ingi spurði hvort ráðherrann telji koma til greina, að ríkið taki þátt í kostnaði sveitarfélaga við rekstur almenningssamgangna og þá hvernig.

Í svarinu segir m.a., að almenningssamgöngur séu þjóðfélagslega hagkvæmar auk þess sem þær stuðli að margvíslegum umhverfislegum ávinningi, svo sem minni losun gróðurhúsalofttegunda, minni staðbundinni loft- og svifryksmengun og hljóðvist verði viðráðanlegri aukist almenningssamgöngur á kostnað notkunar einkabílsins.

„Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið í umhverfismálum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá 2002 um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar. Þar var eitt markmiðið að dregið yrði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með eflingu almenningssamgangna," segir m.a. í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert