Skotveiðifélag Íslands hefur sent Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, bréf þar sem hún er hvött til að beita sér fyrir því að refaveiðar verði heimilaðar í friðlandinu á Hornströndum í vor.
Í bréfinu, sem Sigmar B. Hauksson, formaður félagsins, skrifar undir, segir m.a. að félagsmenn og bændur hafi iðulega bent á að undanfarin tvö ár hafi óvenju mikið verið af ref. Í haust sem leið séu dæmi um að rjúpnaveiðimenn hafi skotið fleiri refi en rjúpur.
Þá hafi vakið athygli nú í haust hve lítið var af rjúpu á Vestfjörðum. Hins vegar hafi verið mikið um ref á svæðinu og þar sem tíðarfar var milt nú í haust hafi refurinn talsvert verið á ferðinni til fjalla. Greinilegt sé að rjúpa var uppistaðan í fæðu refanna.
Í bréfinu er lýst því áliti Skotveiðifélags Íslands, að refurinn haldi rjúpnastofninum niðri á Vestfjörðum. „Rannsóknir í Bandaríkjunum og í Svíþjóð sýna að ef stofnar rándýra eru friðaðir í þjóðgörðum þá verður óeðlilegur vöxtur í stofninum og dýrin fara að leita út fyrir þjóðgarðinn. Það er undarlegt, þó ekki sé meira sagt, að annars vegar er refurinn friðaður í friðlandinu á Hornströndum en sunnan við friðlandið er greitt fé til að eyða honum. Þá er rétt að benda á að æðarrækt er þýðingarmikil atvinnugrein á Vestfjörðum og vinnur refurinn gríðarlegt tjón á æðarvarpi á svæðinu. Þá er sauðfjárrækt uppistaða landbúnaðar á Vestfjörðum. Einnig er rétt að benda á að stöðugt fækkar fólki á Vestfjörðum og eru stór svæði óbyggð. Gríðarlega erfitt er því að stunda refaveiðar þar og finna og vinna greni. Af framangreindu má sjá að full ástæða er til að grenjavinnsla verði heimiluð nú þegar í vor,“ segir í bréfinu.