Á yfir höfði sér sekt fyrir að hafa keypt áfengi handa unglingum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann á þrítugsaldri í Smáralind síðdegis á föstudag. Maðurinn hafði keypt áfengi í vínbúð í verslunarmiðstöðinni en drykkjarföngin voru þó ekki til eigin nota heldur var kaupandinn að ganga erinda tveggja pilta, 16 og 17 ára, sem höfðu ekki aldur til að kaupa áfengi.

Að sögn lögreglunnar voru maðurinn og báðir piltarnir fluttir á svæðisstöðina í Kópavogi en foreldrar þeirra síðarnefndu voru kallaðir til. Maðurinn á sekt yfir höfði sér, lágmark 20 þúsund krónur.

Lögreglan segir, að annað slíkt atvik hafi komið upp á sama stað á laugardag. Þar áttu í hlut tvær konur á þrítugsaldri en þær eru grunaðar um að hafa keypt áfengi fyrir þrjú ungmenni sem eru á aldrinum 16-19 ára. Það mál er í rannsókn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert