Kanna á möguleika á því að útrýma minki á Snæfellsnesi og í Eyjafirði í ár. Sérstöku verkefni hefur verið hrint af stað með það að markmiði og þegar því lýkur á að vera hægt að meta hvort farið verður í átak til útrýmingar á mink á landsvísu.
Þetta segir Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, í samtali við Skessuhorn. Samið hefur verið við Umhverfisstofnun, sem sér um framkvæmd þessa verkefnis. Verkefnið er þegar hafið og mun Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi sinna úrvinnslu sýna og rannsóknum.
„Minkar sem hafa veiðst hér á Snæfellsnesi eða norður í Eyjafirði verða sendir til okkar á Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi. Við viljum fá allt dýrið til rannsókna svo unnt verða að ná sem flestum niðurstöðum,” segir Róbert Arnar Stefánsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi, í samtali við Skessuhorn.