Forsvarsmenn Framsóknarflokksins kynntu kosningstefnuskrá flokksins í morgun.
mbl.is/Sverrir
Framsóknarflokkurinn kynnti kosningastefnuskrá sína í dag en hún ber yfirskriftina: Árangur áfram - ekkert stopp. Þar segir, að með áframhaldandi uppbyggingu öflugs atvinnulífs og kröftugri nýsköpun sé unnt að standa undir enn frekari eflingu velferðarkerfisins og þeirri samhjálp, sem menn vilji geta boðið fólki um land allt. Mikilvægt sé að áfram sé unnið að framförum af framsýni og krafti en um leið staðfestu og stöðugleika.
Fram kemur að nokkur af brýnustu verkefnum á næsta kjörtímabilsins séu eftirtalin:
- Áframhaldandi uppbygging samkeppnisfærs atvinnulífs og afkomuöryggi í öllum byggðum.
- Atvinnuþróun nái til alls landsins og háskólanám verði eflt enn frekar.
- Skattleysismörk verði 100 þúsund krónur og stimpilgjöld verði afnumin.
- Lán Íbúðalánasjóðs miðist við markaðsverð en ekki brunabótamat.
- Eingöngu verði einstaklingsrými á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
- Frítekjumark á atvinnutekjur lífeyrisþega verði hækkað og frítekjumark verði sett á greiðslur úr lífeyrissjóðum.
- Víðtæk sátt verði um þjóðareign á auðlindum og stofnaður auðlindasjóður þjóðarinnar.
- Gerð verði verndar- og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl.
- Dregið verði úr flutningskostnaði fyrirtækja á landsbyggðinni.
- Þjóðvegir frá höfuðborginni verði tvöfaldaðir og unnið verði að jarðgangagerð á 2-3 stöðum samtímis næstu áratugi.
- Fjármagn og mannafli lögreglu verði aukin.
- Nú jafnréttislöggjöf verði sett sem afnemur skyldu starfsmanna til launaleyndar og jafnar stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum.
- 12 mánaða fæðingarorlof og gjaldfrjáls leikskóli í samvinnu við sveitarfélög.
- Virðisaukaskattur á lyfjum og barnavörum lækki í 7%.
- Ókeypis tannvernd verði til 18 ára aldurs.
- Námslán mæti raunverulegri framfærsluþörf.