Enn hækkar vöruverð hjá birgjum

Neytendasamtökin segja, að birgjar haldi áfram að hækka verð á matvöru og beri við erlendum verðhækkunum. Þannig hafi Gunnars Majones boðað 7% verðhækkun á vörum síðar í þessum mánuði og Danól hafi nú tilkynnt um hækkanir á sumum vörum sínum um 5,4-15,2% frá næstu mánaðarmótum.

Vörur sem Danól flytur inn eru m.a. Ota vörur, Quaker kornvörur og Merrild kaffi. Neytendasamtökin segja, að Danól hafi hækkað ýmsar aðrar vörur sínar í janúar sl. um 3-5%.

„Þarna eru þessir birgjar að taka ávinning neytenda af lækkuninni á virðisaukaskattinum til baka og til sín. Þessar hækkanir valda því miklum vonbrigðum. Í lok marsmánaðar kölluðu Neytendasamtökin eftir því að birgjar lækkuðu verð hjá sér, enda væri slíkt í samræmi við styrkingu krónunnar frá áramótum. En gengislækkun krónunnar í lok árs var gjarnan gefin sem ástæða fyrir verðhækkunarhrinu birgja í janúar og febrúar. Neytendasamtökin hvetja birgja enn einu sinni til að vera sjálfum sér samkvæmir og taka sama tillit til hækkunarþarfa og möguleika til að lækka verð," segir á vef Neytendasamtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert