Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður velti jeppabifreið sinni á Steingrímsfjarðarheiði um klukkan sex í gærkvöldi. Hann var á leið suður til Reykjavíkur eftir kosningafund á Ísafirði. „Landið liggur töluvert hærra en vegurinn á þessum kafla og það hafði runnið mikill krapi úr snjóskafli niður á veginn og bíllinn flaut bara upp þegar ég lenti í þessu," sagði Kristinn í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Bíllinn stakkst á nefið og endaði á hvolfi í snjóskaflinum. „Þetta var mjúk lending, það brotnuðu rúður en mér sýndist skemmdirnar ekki vera miklar. Sjálfur hékk ég á hvolfi í beltinu," sagði Kristinn sem kenndi sér einskis meins.
Bíll sem kom aðvífandi var útbúinn með NMT farsíma og gat kallað eftir aðstoð en ekkert gsm samband er á þessum kafla.