Umhverfisverkefninu Kolviði hleypt af stokkunum

Umhverfisverkefninu Kolviði var formlega hleypt af stokkunum í Þjóðminjasafninu í dag. Markmið Kolviðar er að hvetja Íslendinga til þess að hafa frumkvæði að því að verða fyrsta þjóð heims til að kolefnisjafna útblástur samgöngutækja sinna með skógrækt.

Við þetta tækifæri var undirritaður samstarfssamningur við bakhjarla verkefnisins sem eru ríkisstjórn Íslands, Kaupþing og Orkuveita Reykjavíkur, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Guðfinna S. Bjarnadóttir er formaður stjórnar Kolviðar. „Margir telja hlýnun í lofthjúpi jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, mestu umhverfisógn sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir. Sum ríki áforma að setja á skatta til að fjármagna mótvægisaðgerðir. Við hjá Kolviði viljum fara aðra leið. Við viljum bjóða landsmönnum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, að taka þátt í verkefninu og axla þannig sjálfir ábyrgð á kolefnislosun sinni,” segir Guðfinna í tilkynningunni.

Vefsíða Kolviðar er www.kolvidur.is, en hún verður kynnt og opnuð almenningi þann 15. maí 2007. Þar geta einstaklingar reiknað út losun koldíoxíðs vegna eigin samgangna og jafnframt greitt fyrir þau tré sem þarf til að „kolefnisjafna” sig.

Fram kemur í tilkynningu að þumalfingursregla sé að árlega þurfi að gróðursetja tré fyrir sem svarar andvirði einnar áfyllingar á eldsneytistank bifreiðar – einn tankur á ári!

Kolviður er kolefnissjóður, stofnaður að frumkvæði Skógræktarfélags Íslands og Landverndar. Upphaflegu hugmyndina má rekja til tónleika er pönkhljómsveitin Fræbbblarnir hélt árið 2003 í samvinnu við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands.

Hugmyndafræði Kolviðar byggir á skógrækt, alþjóðlega viðurkenndri aðferð til að sporna gegn áhrifum koldíoxíðsútblásturs. Hlýnun andrúmsloftsins er að stórum hluta rakin til losunar koldíoxíðs (CO2). Tré vinna koldíoxíð úr andrúmsloftinu.

Þau binda kolefnið (C) og leysa súrefni (O2) út í andrúmsloftið. Fyrsta skógræktarland Kolviðar verður Geitasandur á Suðurlandi. Starfsemi Kolviðar verður vottuð af KPMG endurskoðun.

Soffía Waag Árnadóttir er framkvæmdastjóri Kolviðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert