Heimamenn hafa síðasta orðið um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum

Hugmyndir um að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum sem skapað getur um 5-700 störf voru kynntar í gær. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að skoða verði vel allar hliðar málsins áður en ákvörðun verður tekin.

„Það er mín skoðun að bæjaryfirvöld hafi ekki umboð frá íbúum Vestfjarða til að samþykkja né hafna svona máli. Ég vil því koma af stað upplýstri umræðu þar sem kostir og gallar við hugmyndina verða skoðaðir. Ég vonast til að umræðan um þetta verði ekki svarthvít og að fólk kynni sér þetta mjög vel. Við gætum orðið öðrum til fyrirmyndar í þeim efnum,“ segir Halldór.

Hann segir hugmyndina um olíuhreinsistöðina hafa komið inn á borð hjá sér fyrr í vor. „Ólafur Egilsson hjá Íslenskum hátækniiðnaði, hafði samband við mig fyrir nokkrum vikum og kynnti mér þessa hugmynd. Það fyrsta sem kom upp í hugann var að stöðin fellur ekki undir stóriðju og hentar okkur því ágætlega hér, vegna stefnunnar um stóriðjulausa Vestfirði. Stóriðjulausir Vestfirðir er stefna sem ég held mig fastan við og tel okkur eiga að gera það. Sumir myndu kannski segja að það væri skilgreiningaratriði hvort stöðin flokkist undir stóriðju, og vissulega er þetta stórt og mikið fyrirbæri. En hér er um 500 störf að ræða og því má að sjálfsögðu ekki hafna hugmyndinni án þess að skoða hana.“

Aðspurður um viðbrögð bæjarbúa segist Halldór þegar hafa fundið fyrir sterkum, en misjöfnum viðbrögðum. „Flestir eru jákvæðir, en aðrir skilja ekkert í mér að hafna þessu ekki strax. Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan, að ég tel mig ekki hafa umboð til þess að játa né neita. Næstu vikur munu væntanlega fara í að kynna hugmyndina en ég geri ráð fyrir að athafnamennirnir sem standa fyrir hugmyndinni vilji fá svör frá okkur sem fyrst.“

Halldór segir að ekki sé ennþá farið að ræða mögulega staðsetningu olíuhreinsistöðvarinnar, en við val á staðsetningu verði að taka til greina hafnarskilyrði, t.a.m. dýpi, landrými og nálægð við þjónustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka