Talið að eldurinn hafi kviknað út frá ljósum í söluturni

Talið er að eldurinn í miðborg Reykjavíkur hafi kviknað í söluturni sem er á milli húsanna í Austurstræti og Lækjartorgi, en frá þessu greindi Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, á sameiginlegum blaðamannafundi með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglu og borgaryfirvöldum nú kl. 18. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá ljósum en málið er í rannsókn.

Að sögn Stefáns hófst rannsókn á eldsupptökum fljótlega eftir að bruninn hófst. Hann segir að þegar hafi verið rætt við nokkur vitni í tengslum við málið. Hann segir að verið sé að rannsaka vísbendingar um að eldurinn hafi kviknað í umræddum söluturni.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir eld loga enn í húsunum og að menn hafi verið í hættu í dag. Hann segir slökkvistarfið hafa gengið vonum framar en að það hafi verið erfitt. „Þetta er reyndar dálítið ljótt á að horfa og það er náttúrulega sorglegt til þess að vita að nafli Reykjavíkurborgar sé að taka þessa mynd, en ég veit að borgarstjóri kemur til með að redda því fljótt og vel eins og von er vísa,“ sagði Jón Viðar.

Jón Viðar segir að byrjað hafi verið á því að rífa þakið af Austurstræti 22, sem er í dag betur þekkt sem skemmtistaðurinn Pravda. „Það var eingöngu gert vegna þess að það var mikil hrunhætta og ég treysti ekki því að senda inn menn í þessar hættulegu aðstæður.“

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað á vettvang kl. 14 og hafa um 80-100 manns, bæði lögreglu- og slökkviliðsmenn unnið á vettvangi í dag.

Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. mbl.is/Júlíus
Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Jón Viðar …
Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri ræddu við blaðamenn á horni Lækjargötu og Austurstrætis í dag. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert