Undirrita yfirlýsingu um varnarsamstarf

Íslendingar og Norðmenn munu undirrita viljayfirlýsingu um samstarf á sviði varnar- og öryggismála á fundi utanríkisráðherra landanna í Ósló síðar í þessari viku, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Þá mun einnig vera unnið að sambærilegu samkomulagi við Dani, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Kynnt á ríkisstjórnarfundi og í utanríkismálanefnd í dag

Gert er ráð fyrir að samkomulagið við Norðmenn verði lagt fyrir ríkisstjórnina á fundi í dag. Þá hefur utanríkismálanefnd Alþingis verið kölluð saman til fundar í dag. Þar eru öryggismál á Norður-Atlantshafi efst á dagskrá.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun ætla að kynna fyrirhugað samstarf Íslendinga við Norðmenn á sviði varnar- og öryggismála á fundi utanríkismálanefndar. Valgerður heldur til Noregs síðar í vikunni á óformlegan ráðherrafund Atlantshafsbandalagsins og hittir þar m.a. Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var haft eftir heimildum í Noregi að samkomulagið milli Íslendinga og Norðmanna snerist um eftirlit og öryggisþjónustu á lofti og á sjó. Norðmenn teldu niðurstöðu viðræðna landanna líklega til að auka öryggi og umhverfisvöktun í sívaxandi umferð, m.a. vegna olíuflutninga milli Rússlands og Bandaríkjanna. Meginábyrgð þjónustunnar mun verða á hendi Norðmanna samkvæmt heimildum RÚV.

Í hnotskurn
» Geir H. Haarde forsætisráðherra og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Norðmanna, ákváðu í nóvember sl. viðræður Norðmanna og Íslendinga um samstarf á vettvangi varnar- og öryggismála.
» Viðræður Íslendinga við Dani og Norðmenn um öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi hófust síðan 18. desember sl.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert