Samstarf við Norðmenn um öryggismál gildir aðeins á friðartímum

Bandaríski fáninn dreginn niður á Keflavíkurflugvelli þegar bandaríska varnarliðið hvarf …
Bandaríski fáninn dreginn niður á Keflavíkurflugvelli þegar bandaríska varnarliðið hvarf þaðan á síðasta ári. mbl.is/ÞÖK

Norska blaðið Aftenposten segir, að viljayfirlýsing, sem íslensk og norsk stjórnvöld munu undirrita síðar í vikunni um samstarf á sviði varnar- og öryggismála, snúist aðallega um samstarf á friðartímum. Norsk stjórnvöld hafi undirstrikað, að samkomulagið megi ekki túlka með neinum hætti þannig að Norðmenn axli ábyrgð á vörnum Íslands komi til hernaðar heldur hafi Bandaríkin og NATO eftir sem áður þá ábyrgð.

Blaðið segir, að yfirlýsingin fjalli um mál, sem tengist varnar- og öryggismálum og einnig um samvinnu lögreglu- og öryggisgæslu. Muni Norðmenn m.a. sjá Íslendingum fyrir þjálfun á því sviði.

Einnig er gert ráð fyrir möguleika á auknu samstarfi um björgunarmál og eftirlit með skipaferðum. Þannig muni löndin skoða möguleika á að eiga samvinnu um rekstur nýrra björgunarþyrlna.

Norskar orrustuflugvélar og eftirlitsflugvélar geta farið um íslenska lofthelgi og Norðmenn reikna með að taka þátt í hugsanlegum heræfingum á Íslandi. Þetta tryggi, að ákveðin herstarfsemi verður áfram á Íslandi. Segir Aftenposten að þetta þýði í raun, að Norðmenn aðstoða Ísland við að verja fullveldisrétt sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert