Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu höfðu um helgina afskipti af hálfþrítugum karlmanni, sem kastaði af sér vatni á lögreglubíl. Lögreglan segir, að hafi manninum þótt þetta spaugilegt hafi runnið á hann tvær grímur þegar hann var færður á lögreglustöð. Þar bar hann sig mjög aumlega, iðraðist sáran og sá eftir öllu saman.
Næturævintýri hans fékk snöggan endi og má maðurinn nú búast við að fá 10 þúsund krónur í sekt en með háttalagi sínu braut hann gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar.