Rúmlega áttræð kona í Los Angeles hefur verið flutt á sjúkrahús vegna fjölda bitsára á líkama hennar. Í ljós kom að hún er hænd að dýrum því á heimili hennar voru 120 rottur, 25 kanínur, 6 páfagaukar, hundur og lynghæna.
Samkvæmt upplýsingum frá dýraeftirliti Los Angeles var enginn matur í íbúð konunnar þegar starfsfólk borgarinnar fór að kanna aðstæður á heimili hennar eftir ábendingu frá nágrönnum. Konan var alsett dýrabitum og þótti nauðsynlegt að flytja hana á sjúkrahús. Sagði konan að það hafi komið henni gjörsamlega í opna skjöldu hversu hratt rotturnar fjölguðu sér en í byrjun hafi hún átt einungis tvær.