429 ökumenn eiga nú sekt yfir höfði sér fyrir að aka yfir afskiptahraða á Bústaðavegi um helgina. Brot þeirra náðust á löggæslumyndavél en hinir brotlegu óku að jafnaði á liðlega 77 km hraða. Hundrað tuttugu og fimm ökumenn voru mældir á yfir 80 og tuttugu fimm á yfir 90 en sá sem hraðast ók var á 107 km hraða.
Umrædd myndavél er staðsett á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Bústaðaveg í vestur en þar er 60 km hámarkshraði, samkvæmt frétt frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sérstök ástæða er til að hvetja ökumenn til að sýna varkárni þegar farið er um Bústaðaveg. Þar fjölgaði umferðaróhöppum um rúmlega helming fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Í apríllok höfðu 86 umferðaróhöpp orðið á þessum vegi en þau voru 55 sömu mánuði 2006. Ljóst er að hraðakstri er um að kenna í mörgum tilvikum, að því er segir í frétt frá lögreglunni.
Annars staðar í umdæminu voru sextíu og fimm ökumenn teknir fyrir hraðakstur en í fáeinum tilvikum var um ofsaakstur að ræða. Fjörutíu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina.