Styr staðið um hárgreiðslustól í 4 ár

Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is
Ríkey Pétursdóttir, hárgreiðslumeistari í Kópavogi, hefur allt frá árinu 2003 reynt að fá starfsleyfi til að reka hárgreiðslustofu með einum hárgreiðslustól á heimili sínu. Skipulagsnefnd Kópavogsbæjar hafnaði erindi hennar í fyrstu og vísaði til mótmæla nágranna í hverfinu.

Lögmaður Ríkeyjar, Sveinn Guðmundsson, segir að umbjóðandi sinn hafi mótmælt þeirri niðurstöðu og óskaði nefndin í kjölfarið eftir umsögn lögmanns bæjaryfirvalda. Í umsögn lögmannsins komi fram að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, en þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem sé eðlilegt að sé til reiðu fyrir íbúa viðkomandi hverfis, svo sem verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum og þjónustustarfsemi. Þrátt fyrir umsögnina hafi bæjaryfirvöld hafnað umsókn um starfsleyfi þar sem tillaga um breytt deiliskipulag hefði ekki náð fram að ganga.

Rétturinn til aflahæfis ótvíræður

Mál Ríkeyjar var á nýjan leik tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi 12. júní sl. í sömu andrá og fjallað var um rekstur nektardansstaðarins Goldfinger, sem haft hefur starfsleyfi frá Kópavogsbæ til margra ára, og segir lögmaður Ríkeyjar þetta endurspegla fáránleika málsins. "Ég hef í á annan áratug starfað sem lögmaður fyrir einstaklinga og fyrirtæki og aldrei fyrr hef ég séð jafnlítið mál stækka jafnmikið í smæð sinni eftir því sem fram líða stundir," segir Sveinn. Á umræddum fundi var afgreiðslu undanþágu Ríkeyjar frestað og vísaði Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, til þess að frekari lögfræðilegrar ráðgjafar væri þörf og ennfremur væri nauðsynlegt að bæjarfulltrúar kynntu sér málið betur.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka