Sjóður vegna átaks gegn eiturlyfjum

Langbrýnasta verkefnið fyrir framtíð Íslands er stofnun sjóðs til að standa straum af átaki gegn eiturlyfjasölu, segir í minningargrein Einars S. Hálfdánarsonar um dóttur sína, Susie Rut, sem birtist á miðopnu Morgunblaðsins í gær.

Í kjölfar sviplegs fráfalls Susie Rutar hefur verið hrundið af stað söfnun undir yfirskriftinni "Dóp er dauði".

Reikningurinn er í Landsbankanum og númerið er 0101-05-269667. Kennitala reikningsins er 130354-2119.

Susie Rut

Susie Rut fæddist á Valentínusardag 1985. Hún var fljót í heiminn og nú hófst 10 mánaða vaka því Susie svaf lítið.

Susie Rut fæddist á Valentínusardag 1985. Hún var fljót í heiminn og nú hófst 10 mánaða vaka því Susie svaf lítið. Það er því varla furða að þegar ég hélt á henni við gluggann í Goðatúninu fimm til sex mánaða gamalli og sagði "kisa" þá kom svar: "tis". Á jólunum gekk hún kringum jólatréð og talaði og talaði.

Í hönd fóru hamingjuárin hennar. Hún var læs 2 ára gömul, allæs 3 ára og las og lék sér. Þá urðu til skrýtin orð eins og "götustelpuljós" (ljósastaur). Árin þar sem Susie sagðist halda að Lusie, tíkin hennar Guðrúnar systur, afgreiddi í búð af því að hún Lusie var svo skynsöm. Árin sem ég sagði henni sögur af hundunum úr sveitinni og lauk einni með orðunum "det var nú det". "Af hverju ert þú að tala dönsku, Vaskur minn?" Síðan komu fjögur yndisleg ár í Ísaksskóla hjá Sigrúnu þar sem skólaslitin með söng gleymast ekki. Undir lok skólagöngunnar í Ísaksskóla fóru að koma hringingar frá bókasafninu: "Það er hér lítil stúlka að biðja um Tolstoj, á hún að taka hana?" En það voru ský við sjóndeildarhringinn, svört ólguský. Hún hóf nú nám við Miðskólann. Hún pirraði fyrsta kennarann sinn þar með athugasemdum og spurningum og dró jafnvel í efa það sem sagt var. Skólastjórinn sendi hana hins vegar í greindarpróf. Susie Rut mældist greindari en langflest okkar, langtum greindari.

Hringingin úr skólanum sagði að ekki væri allt sem sýndist. Susie er þjófur! Hún stelur peningum frá foreldrum sínum og öðrum og slær um sig með sælgæti í skólanum. Nú varð að beita hana viðurlögum og aga, bæði í skóla og á heimili. Hún virtist ekki aðlagast í skólanum og grúfði sig yfir bækur, m.a.s. Dostojevskí. Það var ekki fyrr en miklu seinna, langtum seinna, að hún sagði okkur að hún hefði notað sælgætið til að blíðka kvalara sína. Allir brugðust henni, mest ég. Skilningsskortur og hugleysi er synd og syndir feðranna munu koma niður á börnunum.

Úr Miðskólanum kom Susie með kramið hjarta og slíkt hjartasár skilur eftir ör sem aldrei hverfa. Seinna þegar hún Susie bjó til lista yfir þá sem hún ætlaði að fyrirgefa var að lokum eitt nafn eftir á listanum; nafn þeirrar sem hafði sig mest í frammi.

Unglingsárin voru Susie erfið. Hún sinnti ekki náminu, en tók góð próf með stuttum skorpulestri. Hún var reið og einþykk og er þá fátt talið. Um þetta leyti orti hún ljóð. Hún byrjaði í MR, sem hún fór í mín vegna, og þá byrjaði "spíttið". Það liðu ekki nema fáir mánuðir þar til hún fór í meðferð.

Meðferð á Íslandi var fyrirbæri sem væntanlega átti ekki marga sína líka. Þar ægði þá öllum saman, ungum og öldnum, körlum og konum. Þar var t.d. tilvalinn staður fyrir menn til að hvíla sig á neyslu um skamma hríð, slá tvær flugur í einu höggi; hvíla sig og finna stúlku í framhaldið þegar út væri komið. Þá höfðu menn símasamband og þurftu því ekkert sérstaklega að einbeita sér að meðferðinni og gátu jafnvel látið færa sér sitt lítið af hverju, enda lærði Susie að sprauta sig í sinni fyrri meðferð og kynntist morfíni í þeirri síðari. Morfín varð hennar fíkn. Neyslutímabilið varð stutt, en hart. Rétt rúmlega 18 ára gekk hún í AA og bjó í 12 spora húsinu. Hetja sem lítið ber á í baráttunni við eiturlyfin, sem heitir Jón Guðbergsson, reyndist okkur og Susie ómetanleg stoð.

Og svo varð aftur bjart. Þegar eitrið sleppti tökunum varð hún aftur blíð og góð og hlý og gefandi, aftur yndisleg. Og hún hóf fullt starf með námi á röntgendeild Landspítalans. Að lokum dró hún úr vinnu og tók stúdentspróf með góðum árangri á einu ári með vinnu.

Snemma vors fór hún til langdvalar í Mexíkó til að ná fullum tökum á spænsku í háskólanum þar áður en hún færi til frekara náms. Hana langaði mest að verða læknir.

Dvölin varð endaslepp. Hún fann varnirnar byrja að bresta fjarri stuðningi og flýtti sér heim. Hún var með alvarlega sýkingu þegar heim var komið og þurfti spítalavistar við og veikindin urðu alvarleg með endurteknum áföllum. Hún og við öll þekktum lífshættuna. Verkjalyfin sem hún varð að fá væru neistinn sem myndi kveikja morfínfíknina. En innan veggja spítalans yrði hún samt örugg. Strax að dvölinni lokinni færi hún í afeitrun og sólin myndi aftur skína í lífinu okkar. Vinir hennar bæði innan og utan AA voru hjá henni og studdu hana.

En á spítalanum var vargur í véum. Jafnvel þar plantar djöfullinn verkfærum sínum. Í næsta herbergi var "sjúklingur". Hann fór að hafa ofan af fyrir Susie Rut með sögum. En ekki er allt sem sýnist. Tíminn langi á spítalanum var á enda. Susie Rut var aðframkomin og pantaði dvöl í afeitrun. Hún hafði vissulega fengið að finna fyrir fordómum og kveið því mest að mannorð sitt yrði dregið í svaðið. Hún þarf að minnsta kosti ekki að reyna það, bara við. "Mamma, ég verð að komast, ég verð." Og hún fékk vilyrði fyrir innlögn. Í eigingirni minni sagði ég mömmu hennar að hitta mig erlendis þar sem ég var að vinna. Hún hafði ekki vikið frá englinum okkar allan tímann á spítalanum; öllu var óhætt. Það voru vonbrigði fyrir okkur og hana þegar í ljós kom að stofnunin, þar sem hún hafði unnið svo mikið og gott sjálfboðastarf, hætti við að leggja hana inn þar eð hún þyrfti áframhaldandi sýklalyfjameðferð í æð tvisvar á dag, þótt LSH teldi því ekkert til fyrirstöðu. Þrátt fyrir þetta reiðarslag var engan bilbug á henni að finna; ekki að heyra. En það voru tveir kvíðafullir dagar þangað til mamma kæmi heim. Djöfullinn hafði sín áform, lagði sínar snörur. Aðfaranótt laugardags sjást tvö símtöl hringd til Susie Rutar frá skemmtilega manninum í næsta herbergi. Henni hefur svo verið afhentur ofurskammtur eiturlyfja sem var líkama hennar, án eiturlyfja í næstum 4 ár, um megn.

Við þökkum englum í mannsmynd sem starfa á gjörgæsludeild og Nonna frábæra aðhlynningu.

Eftirmáli:
Þá 3 daga sem dauðastríð dóttur minnar stóð fór ég að hugsa um hvað ég gæti gert til að forða öðrum frá örlögum hennar. Ég ákvað að segja frá henni, frábærri stúlku sem eiturlyfjasalarnir hafa rænt lífinu. Rænt henni frá fjölskyldu sinni sem elskaði hana.

Á Íslandi hefur aldrei verið framið hryðjuverk, en við höfum miklar varnir gegn þeim. Öflugustu glæpasamtök heims sjá um framleiðslu og dreifingu eiturlyfja. Þau eru eiturlyfjastóriðnaðurinn. Viðskiptaplanið er einfalt, en eitursnjallt. Markhópurinn er 16-18 ára unglingar í vanda. Ef viðskiptavinirnir nást á þessum mótunarárum næst þrælbundinn hópur framtíðarviðskiptavina. Markaðsaðferðin er maður á mann. Skilaboðin eru í fyrsta lagi að nafngreindir eru þjóðþekktir menn. "Sérðu NN? Ég sel honum. Það er bara bull að eiturlyf skaði alla. Það er persónubundið. Við höfum líka vald. Undir okkar vernd ertu öruggur." Næsta stig er bein símasala. Þú losnar aldrei undan henni. "Vantar þig ekki...? Ég var að fá nóg af því. Ertu blankur? Við reddum því." Hluti skemmtanaiðnaðarins styður svo við.

Eiturlyfjaneysla veldur meiri samfélagsskaða en nokkuð annað. Kostnaður löggæslunnar, heilbrigðisþjónustunnar, trygginganna og félagsþjónustu sveitarfélaganna reiknast í tugum milljarða. Mannslífin reikna ég ekki. Við þurfum ekki að skálda upp tölur í þessu sambandi eins og nýleg dæmi eru um í öðrum málaflokkum. Eiturlyfjafaraldurinn komst ekki á blað í síðustu kosningum. Hann telst væntanlega ekki málefni fjölskyldunnar.

Ofbeldið tengt eiturlyfjum hér á landi er þyngra en tárum taki. Ekki spyrja afbrotafræðingana um tölurnar. Látið frekar blinda lesa upp. Spyrjið spítalana. Ég þekki föður eiturlyfjaneytanda sem hefur handleggsbrotnað 26 sinnum. Ekkert varðandi handleggsbrotin er nokkurs staðar skráð sem afbrot. Ráðin til að verjast eiturlyfjasölunum líkt og hermdarverkamönnum eru til. Þau kunna að kosta tafir hjá farþegum og í farmflutningum. Við þurfum að meta rétt vitna og fórnarlamba til lífs og líkamshelgi, meta vægi hans gagnvart rétti sakborninga. Við vitum hvernig vogarskálarnar halla í dag. Lögreglan þarf sanngjarnan rétt til rannsókna. Mig langar hér í lokin að hvetja til stofnunar sjóðs með framlögum landsmanna. Sjóðs til að standa fyrir átaki gegn eiturlyfjasölunni. Þetta er langbrýnasta verkefnið fyrir framtíð Íslands.

Pabbi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert