Sextíu brot, sem varða akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, voru skráð hjá lögreglu í júnímánuði eingöngu. Jafngildir þetta tveimur brotum á dag í júní. Eru því skráð brot í þessum málaflokki orðin 210 talsins á tímabilinu 1. janúar til 30. júní. Í fjórtán banaslysum í fyrra voru ofsaakstur, áfengi og fíkniefni meginorsök, en þetta er helmingur allra slysa á árinu, skv. upplýsingum frá Umferðarstofu.
Ölvaðir ökumenn urðu valdir að níu banaslysum og í tveimur slysum til viðbótar fóru verulega ölvaðir einstaklingar í veg fyrir umferð. Í einu slysi var ökumaður undir áhrifum ólöglegra fíkniefna.
Að sögn Páls E. Winkels aðstoðarríkislögreglustjóra breyttust ákvæði umferðarlaga í fyrra sem höfðu í för með sér nákvæmari skilgreiningu á brotum af þessu tagi. „Það eitt að ávana- eða fíkniefni mælist í blóði ökumanns merkir að hann er þar með orðinn óhæfur til að stjórna ökutæki,“ bendir hann á.
„Áður voru þessi mál matskennd með því að sérfróðir aðilar urðu að meta í hvert sinn hvort magn fíkniefna í viðkomandi ökumanni væri nægjanlegt til að gera hann algerlega óhæfan til aksturs.“
Ekkert umburðarlyndi
Ef ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- eða fíkniefna er tekið sérstakt próf á staðnum sem gefur vísbendingu um neyslu og í framhaldi er tekið blóðsýni til staðfestingar. Reynist það jákvætt missir ökumaður réttindi sín þangað til dómur kveður nánar upp úr með ökuleyfissviptingu á grundvelli ákæru.
„Lögreglan hefur nú mun öflugri tækjabúnað til að mæla fíkniefni í ökumönnum og auk þess hefur eftirlitið verið hert,“ segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu.
„Samkvæmt nýjum umferðarlögum er engu umburðarlyndi gagnvart þessum brotum til að dreifa. Ef ökumaður er staðinn að akstri undir áhrifum einhverra ólöglegra fíkniefna missir hann ökuréttindin og skiptir þá engu hversu lítil eða mikil vímuáhrifin eru. Það hafa hlotist af mjög alvarleg slys vegna þessara brota, jafnvel banaslys, en sem betur fer er lögreglan í dag betur í stakk búin til að uppræta þennan ófögnuð.
Svo virðist sem þess misskilnings hafi gætt hjá fólki að „auðveldara“ sé að komast upp með akstur undir áhrifum fíkniefna í samanburði við ölvunarakstur, en með nútímatækni er hægt að afhjúpa neyslu þessara efna á staðnum.“