Um 20 umhverfisverndarsinnar frá aðgerðarsamtökunum Saving Iceland hafa hlekkjað sig saman og lokað veginum sem liggur upp að álveri Norðuráls á Grundartanga.
Sigurður Harðarson, einn mótmælendanna, sagði, í samtali við mbl.is, mótmælin vera friðsöm og að verið sé að vekja athygli á náttúruspjöllum og þeirri mengun sem komi frá verksmiðju Íslenska járblendifélagsins og álverinu. Einn lögreglumaður er á staðnum en fleiri lögreglumenn frá lögregluembættinu á Borgarnesi eru á leiðinni.
Bílaröð hefur myndast á veginum en að sögn Sigurðar hefur ekki komið til neinna átaka. „Þeir hlæja að þessu bara,“ segir Sigurður aðspurður um viðbrögð ökumanna. Þá segir hann að mótmælendurnir hafi hvorki farið inn á vinnusvæði álversins né járnblendifélagsins.
Hann segir að mótmælin muni standa yfir þar til allir mótmælendurnir verða fluttir á brott, en þau hófust skömmu eftir kl. 15.