Skipulag þverbrotið á Snæfellsnesi

Eftir Arndísi Þórarinsdóttur

arndis@mbl.is

„Vandinn er fyrst og fremst sá að framkvæmdaraðili hefur hvorki staðið við eigin yfirlýsingar í framlögðum gögnum né stjórnvaldsfyrirmæli. Úr því að þannig er staðið að verki hefði mat á umhverfisáhrifum í engu bætt þessa framkvæmd," sagði Sigurður Ásbjörnsson, sérfræðingur á umhverfissviði Skipulagsstofnunar, í samtali við Morgunblaðið um málefni Múlavirkjunar, en virkjunin virðist brjóta í bága við skipulag og ekki verður annað séð en sveitarstjórnin hafi brugðist skyldu sinni við að hafa eftirlit með framkvæmdunum.

Þannig er háttað í Eyja- og Miklaholtshreppi, þar sem virkjunin er staðsett, að oddviti hreppsnefndar, Eggert Kjartansson, er jafnframt framkvæmdastjóri Múlavirkjunar ehf. sem reisti virkjunina árið 2005.

Slapp við umhverfismat

Saga málsins er í sem stystu máli sú að þrír Snæfellingar, þar af tveir bændur sem eiga land að Straumfjarðará í Eyja- og Miklaholtshreppi taka sig saman um að reisa virkjun. Í sumarbyrjun 2003 var Skipulagsstofnun send greinargerð frá Múlavirkjun ehf. um framkvæmdina sem var send áfram til lögbundinna umsagnaraðila, s.s. leyfisveitenda, Umhverfisverndarstofnunar, Veiðimálastofnunar, Fornleifaverndar ríkisins o.fl.

Umhverfisstofnun hafði mestar áhyggjur frá upphafi af staðbundnum stofni urriða og straumandarvarpi á staðnum. Stofnunin hafði jafnframt af því þungar áhyggjur að yfirborð Baulárvallavatns myndi hækka. Í bréfi dagsettu 4. nóvember 2003 til Skipulagsstofnunar segir Bjarni Einarsson, þáverandi framkvæmdastjóri Múlavirkjunar: "...eins og margoft hefur komið fram er ekki gert ráð fyrir að hækka vatnsborð Baulárvallavatns og því óskiljanlegt að Umhverfisstofnun sé sí og æ að staglast á þessu."

Þremur dögum síðar ákvað skipulagsnefnd að fyrirliggjandi gögn gæfu það til kynna að svo lítið rask yrði af virkjuninni að ekki þyrfti að setja hana í umhverfismat.

Þegar framkvæmdir hófust haustið 2004 tóku kvartanir að berast Skipulagsstofnun um frágang við framkvæmdirnar. Kvörtunum fjölgaði enn um veturinn og að vori fór Sigurður Ásbjörnsson frá Skipulagsstofnun upp að virkjuninni til að kanna aðstæður. Hann fann ýmislegt sem betur hefði mátt fara, t.d. var stöðvarhúsið öllu stærra en ætlað var. Sigurður taldi engu að síður að allt þetta mætti færa til betri vegar væri viljinn fyrir hendi. Samantekt Sigurðar var send Eyja- og Miklaholtshreppi. Engin viðbrögð komu frá hreppnum.

Um haustið var búið að hleypa vatni að stíflunni og orðið ljóst að uppistöðulón virkjunarinnar náði saman við Baulárvallavatn og vatnsborð vatnsins hafði hækkað. Fulltrúar Umhverfisstofnunar fóru á vettvang og ályktuðu að ein frumforsenda þess að virkjunin slapp við umhverfismat væri brostin og virkjunin farin að brjóta í bága við skipulag. Skipulagsstofnun sendi hreppnum bréf um málið í september 2005 og áminnti hann um leið um það að sveitarstjórnir skulu fara með eftirlit með því hvort framkvæmdir séu í samræmi við framkvæmda- og byggingarleyfi.

Í október 2005 komu fulltrúar Múlavirkjunar á fund Skipulagsstofnunar og gerðu grein fyrir því að stíflan væri hærri en til hefði staðið. Í kjölfar þess var fulltrúum virkjunarinnar sagt að þeim bæri að gera grein fyrir þeim lagfæringum sem þeir þyrftu að gera til að stíflan yrði í samræmi við skipulag. Engar slíkar lagfæringar hafa enn verið gerðar.

Múlavirkjun ehf. hafnaði því aftur á móti að lækka stífluvegginn, því þá væri fyrirtækinu ekki unnt að standa við nýgerða samninga um orkusölu.

Eigendur Múlavirkjunar komust að þeirri niðurstöðu vorið 2006 í samráði við umsagnaraðila, þar á meðal iðnaðarráðuneytið, að virkjunin skyldi sækja um virkjanaleyfi á ný í ljósi breyttra aðstæðna. Sú umsókn er nú í vinnslu.

"Maður spyr bara: Hver gerði vitleysuna, hver ber ábyrgðina og hver á að laga þetta?" segir Sigurður hjá Skipulagsstofnun og svarar um leið fyrstu spurningunum tveimur – það er framkvæmdaaðilinn sem byrjar á því að brjóta af sér og svo sveitarfélagið sem uppfyllir ekki eftirlitsskyldu sína og grípur inn í.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert